Viðskipti innlent

Hætta vegna hagstjórnarblöndu

Greiningardeild Íslandsbanka gagnrýnir hagstjórn á Íslandi í Morgunkorni sínu í gær. Þar segir að aðhald í ríkisfjármálum sé langt frá því að vera fullnægjandi. Þetta hefur í för með sér að mikill þungi fellur á Seðlabankann sem þarf að grípa til harðra aðgerða sem haft geta slæm áhrif á samkeppnisatvinnuvegina. "Með því að kalla fram ofris krónunnar eru hliðarverkanir peningastefnunnar margfaldaðar - líkurnar á kröftugu bakslagi verða þá meiri þar sem atvinnuleysi myndast í því gati sem áður var útflutningsstarfsemi. Gengisfall, verðbólguskot, rýrnun kaupmáttar og samdráttur í efnahagslífinu væri þá endirinn á því hagvaxtartímabili sem nú ríkir," segir í Morgunkorninu. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir að "hagstjórnarblandan" sé óheppileg. "Þessar aðgerðir eins og þeim er stillt saman, það er lítið aðhald í opinberum rekstri og mikið aðhald í peningamálum, kalla á mjög slæmar hliðarverkanir sem eru þær að ákveðin starfsemi er hrakin úr landi," segir hann. Ingólfur nefnir ferðamannaiðnaðinn, hugbúnaðargerð og önnur útflutningsfyrirtæki. "Það eru þessi fyrirtæki sem munu blæða fyrir þessa hagstjórnarblöndu sem við höfum verið hrakin út í vegna þess að ríki og sveitarfélög eru ekki að standa sig í að beita nægu aðhaldi," segir hann. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að sterkt gengi valdi félaginu ákveðnum vanda. "Við erum búnir að færa hingað framleiðslu markvisst á síðustu árum og hún hækkar alltaf í verði miðað við þá gjaldmiðla sem tekjur okkar eru í," segir hann. Jón bendir hins vegar á að sterkt gengi skapi einnig tækifæri fyrir útflutningsfyrirtæki því fjárfestingar erlendis verði hlutfallslega ódýrari. Jón segir hagstætt skattaumhverfi hafa ráðið því að Össur hafi valið framleiðslu sinni stað á Íslandi. Hann segir ennfremur að gjaldeyrisáhættu sé ekki hægt að komast hjá í útflutningsgeirum sama hvaða gjaldmiðil menn starfa með. Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segir að gengisstefnan geri það að verkum að líklegra sé að vöxtur fyrirtækisins eigi sér stað í útlöndum en hér á landi. Hann segist hins vegar vantrúaður á að gengi krónunnar haldist svo hátt til lengdar en telur það samt sem áður áhyggjuefni að genginu verði áfram beitt svo harkalega í hagstjórninni. "Skilningsleysi á stöðu útflutningsgreinanna er okkur áhyggjuefni," segir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×