Viðskipti innlent

Samstarf vegna ljósleiðaravæðingar

Og Vodafone og Orkuveita Reykjavíkur hafa skrifað undir samning um samstarf vegna ljósleiðaravæðingar heimila og fyrirtækja í landinu en fyrirtækin skrifuðu í lok ágúst sl. undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að samningurinn feli í sér að Og Vodafone kaupi 67,76% hlut Orkuveitunnar í Línu.Neti en á sama tíma kaupir Orkuveitan ljósleiðaralagnir Og Vodafone. Samhliða þessu er gerður samningur til 25 ára um aðgang Og Vodafone að ljóðleiðaraneti Orkuveitunnar. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans nú síðdegis. Orkuveitan kaupir ljósleiðaraeign Og Vodafone samkvæmt kauprétti á 715 milljónir króna en bókfærð eign ljósleiðara Og Vodafone nam 430 milljónum. Söluverð 67,76% hlutar Orkuveitunnar í Línu.Neti nemur 271 milljónum króna á genginu 1,0. Samkvæmt tilkynningu nema yfirteknar heildarskuldir Línu.Nets, að frádregnum viðskiptakröfum og öðrum peningalegum eignum, 43 milljónum króna. Velta Línu.Nets á fyrstu níu mánuðum ársins var 224 milljónum króna en þar sem Og Vodafone yfirtekur aðeins hluta af rekstri Línu.Nets (smásöluhlutann) jafngildir yfirtekin velta 150 milljónum króna á ári og EBITDA um 40 milljónir króna. Eftir kaupin á Og Vodafone um 80% hlut í Línu.Neti þar sem félagið átti fyrir 11,9% í félaginu. Og Vodafone stefnir á sameiningu félaganna á næstunni og hyggst gera yfirtökutilboð í þá hluti sem eftir eru. Í kjölfar kaupa Og Vodafone á 90% hlut í Norðurljósum þann 28. október sl. hefur greiningardeild Landsbankans sett verðmat sitt á félaginu til endurskoðunar. Endurskoðað verðmat verður birt þegar nánari upplýsingar um kaupin liggja fyrir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×