Viðskipti innlent

Ánægja með vaxtalækkunina

Bankarnir hafa lækkað vexti á íbúðalánum í 4,15 prósent. KB banki reið á vaðið í gær og lækkaði sína vexti og hinir bankarnir fylgdu í kjölfarið. Þetta gerðist eftir að Íbúðalánasjóður lækkaði vexti í 4,15 prósent á mánudaginn í samræmi við niðurstöður í útboði ríkisbréfa fyrir helgina. Hallur Magnússon, sviðsstjóri hjá Íbúðalánasjóði, segir að Íbúðalánasjóður hafi ekkert um vaxtalækkun bankanna að segja. "Þetta er fullkomlega þeirra ákvörðun. Ef þeir bjóða sínum viðskiptavinum 4,15 prósenta vexti er það hið besta mál frá sjónarhóli Íbúðalánasjóðs enda lítur Íbúðalánasjóður ekki svo á að hann sé í samkeppni við bankana," segir Hallur og telur að sjóðurinn hafi fengið mjög góð viðbrögð við vaxtalækkun sinni. "Við höfum fengið mikil og góð viðbrögð frá fólki sem hefur haft samband og verið ánægt með þessa vaxtalækkun," segir hann. Vextir á íbúðalánum hjá Íbúðalánasjóði og bönkunum hafa lækkað úr 4,5 prósentum í 4,15 prósent síðustu mánuði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×