Innlent

Ekki vafasamt fólk til landsins

"Við viljum ekki svona hópa inn í landið," segir Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunar, um danska meðlimi vélhjólasamtakanna Hogriders, sem vísað var úr landi á laugardag. Georg vill ekki tjá sig um hvaðan upplýsingar um mennina koma en segir lögregluna fylgjast með slíkum hópum. Georg segir suma þá sem vísað var frá landinu hafa verið á sakaskrá, en öðrum verið hafnað einungis vegna tengsla við Hogriders-samtökin sem ríkislögreglustjóri segir hafa tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi. "Það eitt látum við duga í mörgum tilfellum til að vísa mönnum úr landi. Þetta er erfið ákvörðun og kann hún í einhverjum tilfellum að vera vafasöm út frá Evrópurétti," segir Georg. Sex norskir Vítisenglar, sem var vísað frá landinu þegar þeir komu til Seyðisfjarðar í sumar, hafa ráðið lögmann sem undirbýr nú málsókn gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu að sögn Georgs. Þar vilja þeir fá ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun hnekkt. Þeir sem Útlendingastofnun ákveður að vísa frá landinu geta skotið ákvörðuninni til dómsmálaráðherra. Ef ráðherra staðfestir ákvörðun Útlendingastofnunar er hægt að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum. Þá er hægt að höfða mál fyrir Evrópudómstólum og mannréttindadómstóli Evrópu vegna aðildar Íslands að Shengen. "Að einhverra mati kann að vera vegið að ferðafrelsinu og því spurning hvort nægjanlegt sé að menn séu meðlimir í einhverjum klúbbi til að loka landamærunum fyrir þeim," segir Georg. Hann segir það jafnframt hafa verið skíra stefnu yfirvalda að hindra þá sem hafa tengsl við alþjóðleg glæpasamtök í að koma til landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×