Innlent

Færri glæpir en fleiri fangar

Bandarískum föngum fjölgaði á síðasta ári þrátt fyrir að bæði ofbeldisglæpum og þjófnuðum fækkaði samkvæmt nýrri skýrslu bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Föngum fjölgaði um tæp tvö prósent á síðasta ári og í árslok voru rúmlega 2,2 milljónir manna á bak við lás og slá að því er fram kemur í skýrslunni og greint var frá í blaðinu New York Times . Allen J. Beck hjá dómsmálaráðuneytinu sagði í samtali við blaðið að ástæðan að baki þessu væri lög sem samþykkt voru á síðasta áratug og juku fjölda fangelsisdóma. Handtökum vegna ofbeldisglæpa fækkaði um sextán prósent á árunum 1994 til 2003 en þrátt fyrir það fjölgaði þeim sem voru dæmdir í fangelsi ár frá ári, úr 522 þúsund árið 1995 í 615 þúsund árið 2002. Að auki lengdist fangavist hvers og eins úr 23 mánuðum að meðaltali 1995 í 30 mánuði árið 2001. Athygli vekur að 44 prósent fanga eru þeldökk, 35 prósent eru hvít og nítján prósent af rómönskum uppruna. Nær einn af hverjum tíu þeldökkum Bandaríkjamönnum á aldrinum 25 til 29 ára er í fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×