Innlent

Hnífurinn fannst á vettvangi

"Við teljum okkur hafa fundið vopnið," segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, um rannsóknina á árás þegar maður var særður lífshættulega aðfaranótt miðvikudags. Rúmlega fertugur maður sem grunaður er um verknaðinn var í fyrradag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Hnífurinn sem talið er að notaður hafi verið við verknaðinn fannst á heimili þess grunaða á Hverfisgötu. Ómar Smári vildi ekki segja til um hversu mikil ummerki eftir árásina hefðu verið á vettvangi. Ljóst er þó að lögreglan rakti blóðslóð frá Laugavegi, þar sem sá særði fannst með stóran skurð á kviði þannig að sást í innyfli hans. Hann fór í aðgerð á Landspítalanum og er nú á batavegi. Lögregla gat lítillega rætt við manninn eftir hádegi á miðvikudag en ekki verður tekin skýrsla af honum fyrr en síðar. Sá grunaði hefur ekki játað á sig verknaðinn, að sögn Ómars Smára. Hann hefur ekki verið yfirheyrður síðan skýrsla var tekin af honum eftir handtökuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×