Innlent

Eldri hjón létust í árekstri

Niðurstaða dánardómstjóra í Stafford-héraði í Bretlandi er sú að lát eldri hjóna sem lentu í árekstri við Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfara 10. apríl hafi verið af slysförum. Guðjón var ekki á nokkurn hátt sagður valdur að slysinu í úrskurðinum sem kom nú í byrjun mánaðarins. Hjónin sem létust hétu Ronald og Muriel Bell, frá Natwich í Englandi, hann 73 ára og hún 63. Slysið átti sér stað með þeim hætti að hjónin óku Ford Mondeo-bíl sínum í veg fyrir Audi-bifreið Guðjóns á þjóðvegi A34 nærri Stafford, í Mið-Englandi. Konan lést á sjúkrahúsi þremur dögum eftir slysið og maðurinn rúmri viku síðar. Greint var frá því í breskum fjölmiðlum að með Guðjóni í bílnum hafi verið synir hans tveir og frændi. "Þetta var hörmulegt atvik og erfið lífsreynsla og ég hef svo sem ekkert frekar um málið að segja," sagði Guðjón Þórðarson. Hann sagði að með úrskurði dánardómstjóra nú væri málinu lokið, en það sé eðlilega mjög viðkvæmt, bæði fyrir hann og syni hans sem með honum voru í bílnum þegar slysið átti sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×