Innlent

Stakk mann á hol og iðrin sáust

Maður sem grunaður er um að stinga mann á fertugsaldri á hol í fyrrinótt þannig að hann særðist lífshættulega var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. nóvember næstkomandi. Þá var honum gert að sæta geðrannsókn. Til átaka virðist hafa komið á milli mannanna tveggja á heimili annars þeirra á Hverfisgötu sem endaði með því að annar þeirra stakk hinn með hnífi í kviðinn. Sá sem var skorinn kom sér út úr húsinu og fundu vegfarendur hann nær meðvitundarlausan í blóði sínu. Skurðurinn var svo djúpur að það sást í innyfli mannsins. Maðurinn var fluttur slysadeild Landspítalans þar sem hann gekkst strax undir aðgerð sem tókst vel. Undir morgun var ljóst að maðurinn væri úr lífshættu. Lögregla náði að rekja blóðslóðina frá Laugavegi að húsi, skammt frá þar sem meintur árásarmaður var staddur. Hvorugur mannanna virtust vera undir áhrifum vímuefna þegar lögreglu bar að garði. Játning liggur ekki fyrir í málinu og ekki er að fullu vitað um ástæðu árásarinnar en að sögn Gunnleifs Kjartanssonar, lögreglufulltrúa í Reykjavík, var hvorki um handrukkun né fíkniefni að ræða. Mennirnir hafa báðir komið áður við sögu lögreglu. Farið var fram á gæsluvarðhaldið vegna rannsóknarhagsmuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×