Viðskipti innlent

Hagnaður Kaldbaks 1,7 milljarðar

Hagnaður Kaldbaks nam 1.737 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt greiningardeild Landsbankans. Hagnaður félagsins skiptist þannig að óinnleystur hagnaður nemur 1.149 milljónum króna en innleystur hagnaður nemur 587 milljónum. Á þriðja ársfjórðungi var gengishagnaður tæpar 2.100 milljónir króna  sem skýrist aðallega af gengishækkunum á bréfum Landsbankans, Samherja og Straums. Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 3.614 milljónum króna sem þýðir að arðsemi eigin fjár á tímabilinu er 43% sem jafngildir 61% arðsemi á ársgrundvelli. Burðarás eignaðist 76,77% hlut í Kaldbaki í lok september og í kjölfarið var gert yfirtökutilboð til annarra hluthafa í Kaldbaki. Stjórnir félaganna hafa undirritað samrunaáætlun og miðast samruni þeirra við 1. október. Því verður rekstur Kaldbaks innifalinn í uppgjöri fjórða ársfjórðungs Burðaráss.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×