Sport

Margrét Lára í Val

Það er ljóst að Íslandsmeistarar Vals í kvennafótboltanum ætla sér lítið annað en að verja titilinn á komandi tímabili. Þær hafa fengið Eyjastúlkuna Margréti Láru Viðarsdóttur í sínar raðir en Margrét Lára var valinn efnilegasti leikmaður Landsbankadeildar kvenna annað árið í röð fyrir skömmu auk þess sem hún var markahæst í deildinni í sumar.  Margrét Lára skrifaði undir eins árs samning við Val en Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, sagði í samtali við Fréttablaðið að koma hennar væri mikil lyftistöng fyrir félagið. "Hún er dýrkuð og dáð á Hlíðarenda og mun styrkja okkur mikið. Við horfum ekki síst til Evrópukeppninnar í því samhengi þar sem við verðum með í fyrsta sinn," sagði Börkur. Margrét Lára er dóttir Viðars Elíassonar, formanns knattspyrnudeildar ÍBV og þegar Fréttablaðið innti hana eftir því hvort pabbi hefði tekið vel í félagskiptin sagði Margrét Lára að hann styddi hana fullkomlega. "Foreldrar mínir eru frábærir og hafa alltaf stutt við bakið á mér. Pabbi skildi þetta vel," sagði Margrét Lára og játti því að hann hefði tekið fjölskylduna fram yfir félagið. Margrét Lára mun stunda nám við Menntaskólann í Kópavogi og sagðist vonast til að ná samræma skólann og fótboltann betur en undanfarin ár. "Ég hef átt erfitt með samræma þetta tvennt í Vestmannaeyjum því ég hef eytt svo miklum tíma upp á landi en nú vonast ég til að bót verði á. Valsliðið er mjög sterkt og það eru spennandi tímar framundan með þátttöku í Evrópukeppni," sagði Margrét Lára sem viðurkenndi að hún hefði augastað á fyrsta Íslandsmeistaratitlinum, titli sem hún hefur veirð nálægt því að vinna undanfarin tvö ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×