Innlent

Enginn þrýstingur á félagsmenn

Miðlunartillagan leiðréttir ekki kjör kennara á þann hátt sem samninganefnd Kennnarasambands Íslands vonaðist eftir að sögn Eiríks Jónssonar, formanns sambandsins. "Það gefur augaleið að þegar maður setur fram ákveðna kröfu og nær henni ekki fram þá nær maður ekki eins góðum samningi og maður ætlaði sér," segir Eiríkur. "Þegar við réðum sjálf atburðarásinni þá stóðum við á okkar kröfu. Eftir að það er ljóst að hvorugur aðilinn hreyfir sig þá nýtir sáttasemjari sér ákvæði í lögum um að leggja fram miðlunartillögu. Þá er komið að þeirri stund að hinn almenni félagsmaður taki afstöðu." Eiríkur segir að það hafi verið niðurstaða samninganefndarinnar að setja í hvoruga áttina pressu á félagsmenn. "Ef einstaklingurinn segir já það verður tillagan að kjarasamningi, ef hann segir nei þá er það atkvæði um að halda áfram í verkfalli sem getur orðið mjög langt. Þá er það hann sem er að taka ákvörðun um hvort hann vill vera launalaus í verkfalli áfram." Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að miðlunartillagan verði til þess að leysa kjaradeiluna segir Eiríkur: "Ég hef ekki hugmynd um það. Ég bara treysti á að hver og einn kennari kynni sér innihaldið og geri það upp við eigin samvisku hvort hann segir já eða nei."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×