Erlent

Kerry kvartar og kveinar

John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata, segir að bandaríska þjóðin eiga skilið að fá leiðtoga sem viti hvernig á að tryggja öryggi landsins. George Bush forseti segir að Kerry skorti framtíðarsýn og kvarti bara og kveini. Baráttan um Hvíta húsið harðnar nú dag frá degi, enda einungis sex dagar þar til bandaríska þjóðin gengur að kjörborðinu og velur sér forseta. Bush og Kerry keppast við að koma skilaboðum sínum til kjósenda og tryggja sér atkvæði þeirra og ljóst er að dagarnir fram að kosningum verða annasamir. Á ferðalagi sínu í Las Vegas hélt Kerry áfram að gagnrýna Bush vegna Íraks. Hann sagði stjórnina hafa haft vörð við byggingamálaráðuneytið og olíumálaráðuneytið þar í landi en ekki við skotfærageymslur, sem ógnuðu öryggi bandarískra hermanna, né nægan liðsafla til að gæta landamæranna. „Nú eru þessi landmæri eins og gatasigti, hryðjuverkamenn streyma að úr öllum áttum og vandræði okkar aukast dag frá degi,“ sagði Kerry. „Annað hvort sér forsetinn þetta ekki eða vill ekki viðurkenna það. Hvort heldur sem er eru Bandaríkin óöruggari fyrir vikið. Vinir mínir, við eigum skilið að fá yfirmann sem veit hvernig á að gera Bandaríkin örugg og vernda hermennina okkar.“      George Bush heimsótti kjósendur í Iowa og gagnrýndi keppinaut sinn fyrir stefnuleysi. Hann kvaðst hafa jákvæða og bjarta sýn á framtíð lamdsins og ítarlega áætlun um sigur í Írak og í stríðinu gegn hryðjuverkum. „Andstæðingur minn hefur enga áætlun og enga framtíðarsýn - aðeins langan kvörtunarlista. En sá sem er bara vitur eftir á hefur aldrei leitt lið til sigurs,“ sagði Bush.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×