Bíó og sjónvarp

Fátt kom á óvart

Birtist í DV 26. október



TILKYNNT var um tilnefningar til Eddu-verðlauna í gær. Kom reyndar fáum á óvart að kvikmynd tvegga tíma, örlagasaga byggð á skáldsögu, skyldi fá flestar tilnefningar. Kaldaljós var fyrir nokkrum dögum send í Óskarsverðlaun og næsta líklegt að Hilmar Oddsson hampi Eddunni þann fjórtánda nóvember.

FEÐGARNIR Ingvar og Áslákur eru báðir tilnefndir sem aðalleikarar en ekki kæmi á óvart að Jón Sigurbjörnsson stikaði fram úr þeim á lokasprettinum. Akademían er að átta sig á að senioritet er kostur í iðnaði sem vill láta taka sig alvarlega. Reyndar kemur Ingvar  til álita í Felixnum líka sem vefkosning er hafin í á mbl.is.

KONUR eru ráðandi í aukaleikaraflokknum, Kristbjörg, Helga Braga og Snæfríður Ingvarsdóttir. Við þær keppa úr Dís: Ilmur Kristjáns og Þórunn Clausen.

STÖÐVAR 2 menn hljóta að vera himinlifandi að hafa tekið tvær tilnefningar af þremur í flokknum skemmtiþáttur ársins. Stóð nokkur styrr um formats-þáttinn Idol og má mikið vera að hópurinn kringum Idol einsetji sér nú á tveimur vikum að taka þennan slag og treysti þá ekki síst á þáttöku almennings en atkvæði þeirra vega 30% á móti þúsund atkvæðum Akademíunnar.

HEIÐURSVERÐLAUNIN fær Páll Steingrímsson fyrir ára langt framlag sitt til bransans. Hann er vel að því kominn, svona rétt til áminningar að þessi iðnaður er að mestu samansettur af einyrkjafyrirtækjum, fólki í þjónustu- og sjónvarpsbransanum þótt leiknu myndinni hafi um stundarsakir tekist að ná verðlaununum og athyglinni til sín.

JÓN Ársæll snýr aftur í keppninni um sjónvarpsþátt ársins, ásam Brennidepli sjónvarps og kvöldvöku Sirríar. Verðlaunin í þeirri deild verða sorglegur minnisvarði um stöðu innlendrar dagskrárgerðar í lagaumhverfi sjónvarpsstöðva á Íslandi.

FÁTT kom á óvart: Erla B. Skúladóttir komst á blað sem leikstjóri ársins fyrir stuttmyndina sína - prófverkefni?  Móða Jóns Karls fleytti honum líka inn í þann flokk. Virðist valnefndin þar hafa einsett sér að velja hina óreyndari til að ýta við þeim ráðsettu.

EDDAN verður send út þann 14. nóvember á RUV. Fréttablaðið hefur tekið að sér að styðja dæmið sem samstarfsaðili - Mogginn er að linast í svona liðveislu. Ætli þeim veiti ekki af öllum kröftum.

VIÐ sem heima sitjum getum séð Edduna í sjötta sinn í framleiðslu Egils Eðvarðssonar sem Rúnar Gunnarsson treystir einum til verksins. Væri nýnæmi að sjá einhvern annan höndla þetta prógram.  Þeir sem komast á ballið munu sem fyrr verða vitni að óborganlegri skemmtun í auglýsingahléum, frábærri skipulagningu í sal og öðru sem aðeins býðst á þessu kvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×