Lífið

Ný lög um fasteignasala

"Nýju lögin eiga að skapa meira öryggi og festu á fasteignamarkaðnum. Þau gera stórauknar kröfur til menntunar og reynslu fasteignasala og við bindum miklar vonir við að það skili betri og traustari vinnubrögðum innan stéttarinnar," segir Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, um ný lög um fasteignasala sem tóku gildi 1. október síðastliðinn. Hann segir að nú verði stúdentspróf skilyrði til að komast á námskeið til löggildingar fasteignasala, svo og 12 mánaða starfsreynsla. Skipuð hafi verið prófnefnd sem móta muni sérstakt námskeið fyrir verðandi fasteignasala í samvinnu við Háskóla Íslands. Lögin rýmka líka reglur um stofnun útibúa. Nú má fasteignasala stofna útibú innan síns sveitarfélags, sem áður var bannað. Hins vegar hafa faglegar kröfur í útibúunum aukist með tilkomu laganna þannig að þar verður nú að vera starfandi löggiltur fasteignasali eins og á öðrum fasteignasölum. "Annars væri þetta bara eins og að koma á tannlæknastofu þar sem væri enginn tannlæknir," segir Björn Þorri til skýringar. Fyrirtæki í fasteignaviðskiptum þurfa að vera í eigu löggiltra fasteignasala, að minnsta kosti að meirihluta til, og lögin ná líka yfir meðferð fjármuna því hér eftir verður fé viðskiptavina haldið aðskildu frá eigin fé fasteignasölunnar. Þá kveða þau á um virkt eftirlit með fasteignaviðskiptum. Þriggja manna eftirlitsnefnd sem í eiga sæti lögmaður, endurskoðandi og löggiltur fasteignasali mun heimsækja allar fasteignasölur reglulega og hefur nefndin vald til að veita fasteignasölum áminningu, svipta þá löggildingu og jafnvel loka skrifstofum þeirra ef um alvarleg brot á viðskiptareglum er að ræða. "Við vonumst til að með nýju lögunum verði sú lausung sem viðgengist hefur í starfsmannahaldi í starfsgreininni einnig upprætt. Þar hefur verið talsvert um ágóðatengda verktakavinnu en nú verður hún í raun bönnuð."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.