Skoðun

Ætti að fjölga í heiðursflokknum?

Um langt árabil hefur Alþingi veitt útvöldum hópi listamanna sérstök heiðurslaun. Engar formlegar reglur eða viðmiðanir hafa verið til um þessa úthlutun en fyrir valinu hafa oftast orðið rosknir listamenn sem þótt hafa eiga viðurkenningu skilið fyrir framlag sitt til lista og menningar. Gangur mála hefur verið sá að menntamálanefnd Alþingis gerir tillögur í málinu og þær eru síðan teknar upp af fjárlaganefnd sem leggur þær fyrir þingið til ákvörðunar um leið og fjárlagafrumvarpið er endanlega afgreitt í desember. Vitað er að bak við tjöldin reyna hagsmunaaðilar og stjórnmálaforingjar að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Lengi vel var heiðursflokkurinn fámennur en fjölgað hefur í honum á síðustu árum. Nú eru 25 í flokknum. Fær hver þeirra 1,6 milljónir í greiðslu frá ríkissjóði árlega. Ekki eru allir núverandi heiðurslaunþegar jafn "þurfandi" ef svo má segja; sumir búa við traustan fjárhag og rífleg eftirlaun. Í því sambandi koma upp í hugann nöfn þeirra Errós og Matthíasar Johannesen fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Í hópnum eru svo aðrir sem aldrei hafa efnast og njóta lágra eftirlaunagreiðslna. Peningurinn kemur sér sérstaklega vel fyrir þá.

Fjárhagsstaða hafði áhrif

Talið er að fjárhagsleg staða listamanna hafi stundum haft áhrif á það hvort þeir urðu fyrir valinu í heiðurslaunaflokk eða ekki. Alþingismönnum hefur þótt óviðunandi að horfa upp á þjóðþekkta listamenn, sem kannski hafa verið orðnir rosknir og hættir virkri listsköpun, búa við slæm kjör. Meginsjónarmiðið virðist þó hafa verið að heiðra listamenn fyrir framlag til menningarlífsins en ekki að hugsa um afkomu þeirra. Þess vegna hafa menn í góðum efnum, í fullu starfi og jafnvel tiltölulega ungir valist í heiðurslaunaflokkinn.

Pólitík hefur alltaf spilað nokkra rullu við val heiðurslistamanna. Á tíma kalda stríðsins var þess gætt að jafnvægi væri á milli hinna "rauðu" og manna sem borgaraleg öfl höfðu velþóknun á. Þótt þessi hugmyndafræði heyri nú að mestu sögunni til örlar enn á hugsun af þessu tagi; þingmenn eru að halda fram listamönnum sem þeir hafa pólitískan áhuga á. Í fyrra urðu einnig nokkrar umræður á Alþingi og utan þess um aðferðir við val listamanna og deildi þá einn af þingmönnum Vinstri grænna harkalega á vinnubrögð stjórnarliða eins og hér má lesa.



Á vefritinu Múrnum var látið að því liggja að einn nýliðinn í heiðurslaunþegaflokknum væri eingöngu í hópnum á flokkspólitískum forsendum en ekki listrænum. Sá svaraði fyrir sig og taldi ómaklega að sér vegið.

Gagnrýnisraddir

Um viðhorf almennings til heiðurslauna listamanna er lítið vitað; ekki er t.d. kunnugt um að spurt hafi verið um það efni í skoðanakönnunum. En segja má að þverpólitísk samstaða hafi alla tíð verið um réttmæti þessarar styrkveitingar. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem gagnrýnisraddir hafa heyrst og þá yfirleitt frá mönnum sem eru lengst til hægri í stjórnmálum eða eindregið á móti svokallaðri "ríkismenningu". Mátti lesa slík sjónarmið víða á Netinu í fyrra.

Heiðurslaun fest í sessi

Nú er fram komin á Alþingi tillaga til þingsályktunar frá Merði Árnasyni þingmanni Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að heiðurslaunin verði fest í sessi með formlegri hætti en áður. Lesa má tillöguna og greinargerðina með henni í heild hér á vef Alþingis. Orðrétt hljóðar tillagan svo:

Alþingi ályktar að veita skuli árlega heiðurslaun listamanna á fjárlögum. Heiðurslaunin séu að jafnaði veitt allt að fjörutíu íslenskum listamönnum hverju sinni og ekki færri en tuttugu og fimm. Sá sem hefur fengið heiðurslaun skal halda þeim ævilangt. Launin skulu að fjárhæð miðast við lífeyriskjör kennara. Menntamálanefnd geri, ef ástæða þykir til, tillögur fyrir 3. umræðu um fjárlagafrumvarp ár hvert um það hvaða listamenn bætist í þann hóp sem heiðurslaun hlýtur. Nefndin skal við það verk hafa samráð við forystumenn Bandalags íslenskra listamanna. Við tillögugerðina skal miða við að listamaðurinn hafi varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa, að hann hafi skarað fram úr við listsköpun sína eða störf hans að listum skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi, og að listamaðurinn sé kominn á eftirlaunaaldur eða nálgist starfslok. Nefndin skal eftir atvikum taka tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kynjum.

Nýmælið við tillöguna er að festa fjölda heiðurslaunamanna við ákveðið lágmark og hámark. Þá er launakjörin einnig nýmæli svo og viðmiðunin sem ráða skal vali listamannanna. Í rökstuðningi þingmannsins fyrir tillögunni segir meðal annars:

Þess má vænta að samþykkt þingsályktunartillögu sem þessarar skapi meiri festu við veitingu heiðurslaunanna og dragi úr núningi og jafnvel deilum sem stundum hafa komið upp um veitinguna. Heiðurslaunin eiga að vera mikilvæg viðurkenning sem Alþingi sæmir bestu listamenn okkar fyrir hönd þjóðarinnar og er þinginu skylt að búa heiðurslaununum umgjörð sem hæfir tilgangi þeirra.

Eðlilegt eða tímaskekkja?

Satt að segja er ólíklegt að tillagan nái fram að ganga. Á Alþingi skiptast menn í "lið" í flestum málaflokkum og mál sem þingmenn stjórnarandstöðunnar bera fram ná sjaldnast samþykki. Þá er sennilegt - það sýnir reynslan - að ráðandi mönnum í þinginu þyki óþægilegt að láta setja sér skorður í þessum málaflokki.

En sjálfsagt er að velta því fyrir sér hvort heiðurslaun listamanna séu eðlileg og réttmæt? Eða eru þau kannski tímaskekkja eftir að listamannalaun eru orðin algeng og listamenn búa við mun betri kjör en fyrr á árum? Er kannski ástæða til að ræða þetta áður en menn fara að stíga það skref að fjölga í heiðurslaunaflokknum úr 25 í 40 eins og tillaga Marðar Árnasonar opnar fyrir? Gaman væri að heyra hvað lesendum Vísis  finnst um það. Hér er að neðan er hægt að smella á hnapp og skrifa skoðun sína til birtingar á vefnum. Ef eitthvað birtist sem er áhugavert munum segja frá því í Fréttablaðinu.

Guðmundur Magnússon -gm@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×