Viðskipti innlent

KB banki gagnrýnir Íbúðalánasjóð

KB banki gagnrýnir Íbúðalánasjóð harkalega fyrir að hafa íbúðabréfaútboð sín lokuð. Bankinn segir að þetta minnki trúverðugleika sjóðsins og fæli frá erlenda fjárfesta.  Íbúðalánasjóður hélt í gær annað íbúðabréfaútboð sitt, og var það lokað, eins og það fyrra. Íslandsbanka í London var falin sala bréfanna, en hann fékk það einnig síðast ásamt Deutsche Bank. KB Banki brást harkalega við þessu, á vefsíðu sinni, í gær. Þar segir að ljóst sé að með aðgerðum sínum sé Íbúðalánasjóður að hygla einum markaðsaðila umfram aðra, gera verðmyndun með langtímaraunvexti mjög ógagnsæja og gera að litlu þá þróun og endurbætur sem átt hafi sér stað á innlenda skuldabréfamarkaðnum á undanförnum árum. KB Banki segir að trúverðugleiki Íbúðalánasjóðs minnki við þetta. Það geti varla verið til þess fallið að stækka hóp viðskiptavina, að bjóða aðeins einum markaðsaðila bréfin til sölu, og grafa undan verðmyndun á þessum bréfum á sama tíma. Þetta verði til þess að fæla frá erlenda fjárfesta. Landsbankinn gerir einnig athugasemdir við vinnubrögð Íbúðalánasjóðs, þótt ekki sé tekið jafn harkalega til orða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×