Sport

Sviðsettu mótorhjólaslysið

Nú bendir allt til þess, samkvæmt frumrannsókn grísku lögreglunnar, að spretthlaupararnir grísku, Kostadinos Kenteris og Ekaterini Thanou, hafi sviðsett mótorhjólaslys sem þau sögðust hafa lent í síðastliðið fimmtudagskvöld eftir að þau mættu ekki í boðað lyfjapróf. Í kjölfarið var ákveðið að setja þau í keppnisbann. Haft hefur verið eftir háttsettum embættismanni að rannsókn grísks saksóknara sýni fram á að annaðhvort hafi slysið ekki átt sér stað, eða þá að spretthlaupararnir hafi sjálfir sett slysið á svið í þeim tilgangi að veita sjálfum sér áverka. Öll kurl eru ekki enn komin til grafar í þessu sorglega máli, sem þegar hefur sett svartan blett á ólympíuleikana. Málið á án efa eftir að draga mikinn dilk á eftir sér. Grískum almenningi svíður það sérlega sárt að Kenteris skuli tengjast slíku máli því hann átt einmitt að tendra ólympíueldinn á opnunarhátíðinni og var afar vinsæll og virtur í heimalandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×