Lífið

Kristján Freyr elskar að vaska upp

Kristján Freyr Halldórsson er bóksali og trommuleikari í hljómsveitinni Reykjavík, sem er á stöðugri uppleið. Hann hefur mjög gaman af því að vaska upp og ástæðan er meðal annars sú að hann hlustar alltaf á tónlist á meðan: "Mér finnst ég ekki geta hlustað á tónlist nema vera að gera eitthvað annað. Ef ég kaupi mér nýja plötu þá get ég ómögulega sest inn í stofu fyrir framan græjurnar og hlustað stíft heldur er ég fyrr en varir farinn að bauka eitthvað. Ég veit ekki af hverju þetta er en hef lesið viðtöl við tónlistarmenn þar sem þeir segjast alltaf þurfa að prufukeyra lögin sín við einhverjar aðrar aðstæður en í stúdíói, til dæmis í bílnum. Tónlist verður að virka með einhverju öðru og í daglega lífinu. Ég hlusta líka á og gagnrýni mína eigin tónlist þegar ég vaska upp. Ég var til dæmis í plötuupptökum fyrir jólin í fyrra og þá var ég mjög duglegur í eldhúsinu. Þegar ég þarf að hlusta sérstaklega vel á eitthvað fer ég ósjálfrátt að nota fleiri glös og diska til að safna í gott uppvask og skamma konuna fyrir að vaska upp áður en ég kem heim. Svo finnst mér frábært að fá fólk í mat og reyni að fá konuna mína til að elda marga rétti til að fá meira til að vaska upp. Henni finnst alveg frábært að geta gert það sem henni sýnist í eldhúsinu án þess að hafa áhyggjur af uppvaskinu." Kristján hefur í mörg horn að líta á næstunni. Fram undan er Menningarnótt þar sem hann hefur veg og vanda af dagskránni í Bókabúð Máls og menningar en einnig verður hann að spila finnskan tangó um allan bæ. Þannig að uppvaskið verður að bíða..





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.