Sport

Ég bara komst ekki hraðar

Jakob Jóhann Sveinsson var hundsvekktur er hann steig upp úr lauginni í Aþenu í gærmorgun. Hann hafði stefnt á að synda á að minnsta kosti nýju Íslandsmeti í 200 metra bringusundinu en það takmark náðist ekki. Íslandsmet Jakobs er 2:15,20 mínútur en hann lauk sundinu á 2:16,60 sem er ekki fjarri Íslandsmetinu. Sá tími nægði honum ekki til þess að komast í undanúrslit en hann endaði í 21. sæti. Það hreinlega rauk úr stráknum tveim mínútum eftir sundið. "Þetta var bara aumingjaskapur. Ég er ekkert smá óánægður með sjálfan mig," sagði þessu metnaðarfulli sundkappi, sem setti Íslandsmet í 100 metra bringusundinu. "Ég veit ekki hvað klikkaði. Ég fann mig vel fyrstu 100 metrana og sagði við sjálfan mig að núna væri ég búinn að taka þetta því ég er venjulega hraðari á seinni hundrað. En ég fór ekkert hraðar og virtist bara ekki komast hraðar. Ég skil þetta ekki." Jakob vildi ekki kenna lauginni um. Sagði hana vera fína og að hann hefði synt mun hraðar í upphituninni. Strákurinn ætlaði sér stóra hluti á þessum Ólympíuleikum og því voru vonbrigðin að vonum mikil. "Þetta var sko langt frá því sem ég ætlaði mér. Ég hélt ég kæmist auðveldlega inn í undanúrslitin. Mig langaði helst að komast undir 2:14 og ég veit að ég get synt svo hratt. Ég hef gert það á æfingum og því skil ég ekki af hverju þetta gekk ekki upp."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×