Innlent

Hitamet fellur í Reykjavík

Frá Austurvelli.
Frá Austurvelli.
Veðurstofan hefur aldrei mælt hærri hita í Reykjavík en í dag. Talið er að hitabylgjan í landinu hafi náð hámarki. Verslunum var lokað og fundum frestað vegna veðurs. Það var mollulegt um að litast í höfuðborginni í dag, svo heitt að fólk þusti út í sólina að njóta blíðunnar.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu er 30,5 gráður, það var á Teigarhorni árið 1939. Það met verður líklega ekki slegið í dag, en samkvæmt Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi, fór hitinn í Reykjavík í 24,8 gráður og er það mesti hiti sem mælst hefur síðan Veðurstofan tók til starfa.

Áður hafði mælst hæst 24,3 gráður og það var 9. júlí árið 1976. Skýringuna á þessum mikla hita segir Einar vera að mikill heitur loftmassi er yfir landinu, það eitt dugi þó ekki til, einnig þurfi austanátt og sólskin eins og hefur verið í dag. Einar segir að líklega hafi hitabylgjan nú náð hámarki sínu en þó er útlit fyrir svipað veður næstu daga. Veðurfræðingum finnst gaman í vinnunni í dag, enda ekki á hverjum degi sem hitametin falla hvert af öðru.

Víða um land var svipaður hiti og í gær þegar ágúst-hitametin féllu. Á Öxnadalsheiði var 23. stiga hiti í dag en heiðin er í 600 metra hæð. Starfsemi margra fyrirtækja var í lágmarki til að mynda var skilti í glugganum hjá Eggerti Feldskera: Lokað vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×