Erlent

Blóðbað í Najaf

Harðir bardagar milli íraskra uppreisnarmanna og bandarískra hermanna í hinni helgu borg Najaf síðustu tvo daga hafa kostað 300 uppreisnarmenn lífið að sögn bandarísku herstjórnarinnar í Írak. Tugir til viðbótar hafa látist í bardögum annars staðar á svæðum sjíamúslima að sögn íraskra stjórnvalda. Bardagarnir eru einhverjir þeir mannskæðustu sem hafa brotist út milli uppreisnarmanna og bandarískra hermanna. Bardagarnir í Najaf brutust út að morgni fimmtudags. Sveitir hliðhollar klerknum Muqtada al-Sadr og Bandaríkjamenn kenna hvor öðrum um upptökin. Hitt er ljóst að bardagarnir hafa verið mjög harðir. Bandaríkjamenn hafa beitt herþotum og þyrlum í árásum á staði þar sem þeir telja uppreisnarmenn halda sig. Þeir áætla að um 300 uppreisnarmenn hafi látist en segja þrjá bandaríska hermenn hafa látist og tólf slasast í bardögunum. Al-Sadr veittist harkalega að Bandaríkjunum í messu sinni í gær. Hann hvatti til árása á Bandaríkjaher og sagði fráleitt að líta á hann sem bandamenn eins og Íraksstjórn hefur gert. "Bandaríkin eru óvinur okkar og óvinur þjóðarinnar. Við höfnum þessu bandalagi," sagði hann. Á sama tíma kölluðu aðstoðarmenn al-Sadr eftir vopnahléi. "Við skorum á ríkisstjórnina, sem hefur lýst sig fullvalda, að stöðva árásir Bandaríkjamanna," sagði Mahmoud al-Sudani talsmaður al-Sadr. Að auki var óskað eftir aðstoð Sameinuðu þjóðanna við að binda endi á bardagana. Najaf hafði verið nokkuð friðsæl um tveggja mánaða skeið þegar bardagarnir brutust út í fyrradag. Hart var barist í borginni frá apríl fram í júní. Þá eins og nú áttust við sveitir al-Sadr og bandarískar hersveitir. Þeim bardögum lauk með vopnahléi en spennan í samskiptum Bandaríkjamanna og al-Sadr og stuðningsmanna hans hefur magnast mjög að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×