Viðskipti innlent

Stýrivaxtahækkun skammgóður vermir

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segist óttast áframhaldandi verðbólgu og kallar eftir aðgerðum stjórnvalda til að draga úr spennu í hagkerfinu. Hann segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans undir lok síðustu viku vera í takt við fyrri orð bankans um spennu í hagkerfinu og verðbólgu í hærri kantinum.  "Á sama tíma hefur bankinn gagnrýnt ríkisfjármálastefnuna, þ.e. að ríkið gerði ekki nóg til að hamla þenslu og hafi stillt málum þannig upp að peningamálastefnan væri ein um hituna," segir hann og telur tæpast hægt að gagnrýna Seðlabankann fyrir að sinna sínu lögboðna hlutverki, að halda verðbólgu í skefjum. "Það er hins vegar hægt að gagnrýna stjórnvöld fyrir að beita ekki efnahagsstjórn til að draga úr spennu. Svona lagað getur auðvitað fest í sessi og erfitt að stöðva þegar verðbólgan fer í gang," segir hann og telur fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála. Gylfi segist hafa áhyggjur af áhrifum hagstjórnarinnar á fyrirtæki í landinu því vaxtahækkanir dragi úr samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. "Það veikir atvinnustigið og eykur vandann hvað varðar atvinnuleysi. Þessi tegund hagstjórnar er því mjög skammgóður vermir og getur haft mjög eyðileggjandi áhrif á hagkerfið og samsetningu á því," segir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×