Innlent

Ólafur með álíka fylgi og Vigdís

Ólafur Ragnar Grímsson virðist njóta álíka fylgis og Vigdís Finnbogadóttir í forsetakosningunum 1988, þegar litið er til þeirra sem taka afstöðu til frambjóðenda. Samkvæmt könnun Gallup stefnir þó í að auðir seðlar og ógildir verði margfalt fleiri að þessu sinni. Aðeins einu sinni áður hefur það gerst að sitjandi forseti fái mótframboð. Það var árið 1988 þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti og Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram. Kjörsókn í þeim kosningum var tæp 73 %. Í könnun Gallup fyrr í mánuðinum sögðu um 86 % líklegt eða frekar líklegt að þeir muni kjósa í forsetakosningum á laugardag, þar sem valið stendur á milli Ástþórs Magnússonar, Baldurs Ágústssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, sitjandi forseta. Í kosningunum 1988 fékk Vigdís Finnbogadótir 94,6 prósent af gildum atkvæðum og Sigrún Þorsteinsdóttir fékk 5,4 prósent. Samkvæmt fyrrnefndri könnun nýtur Ólafur Ragnar stuðnings um 90 prósent þeirra sem tóku afstöðu til frambjóðendanna. Einn af hverjum fimm, eða tuttugu prósent, sögðust þó engan styðja af frambjóðendunum þremur. Þessi hópur hefur þann kost að sitja heima, skila auðu eða skrifa á seðilinn og ógilda hann þar með. Verði síðari kostirnir ofan á, má búast við að auðir seðlar og ógildir í kosningunum nú verði tíu sinnum fleiri en í forsetakosningum árið 1988, þegar þeir voru um 2 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×