Innlent

Mun færri kjósa utan kjörfundar

Mun færri hafa nýtt sér þann rétt að greiða atkvæði utan kjörfundar, nú þegar átta dagar eru í forsetakosningar, en fyrir forsetakosningarnar árið 1996. Í Reykjavík eru þeir um helmingi færri en norðanmenn eru á svipuðu róli og fyrir síðustu kosningar. Kjósanda sem ekki getur kosið í forsetakosningunum á kjördag, þann 26. júní, er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá hjá sýslumönnum og hreppstjórum um land allt. Í stærsta sýslumannsumdæminu, Reykjavík, hafa 1134 greitt atkvæði sem þykir lág tala þegar svo skammt er til kosninga. Heimingi fleiri höfðu skilað inn atvkæði átta dögum fyrir síðustu Alþingis- og forsetakosningar. Sömu sögu er að segja af fjölda atkvæða sem hafa borist til sýslumannsins í Keflavík. Þau eru 83 en voru 198 þegar átta dagar voru til forsetakosninga árið 1996. Ekki er vitað hvort um er að kenna áhugaleysi eða seinangang kjósenda í Reykjavík og Keflavík eða hvort tölurnar gefi vísbendingar um að fleiri ætli að láta undir höfuð leggjast að greiða atkvæði í kosningunum nú. Sýslumaðurinn Akureyri hefur þó fengið 201 atkvæði í hús eða álíka mörg og fyrir síðustu kosningar. Þeir sem staddir eru erlendis geta greitt atkvæði á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnunum. Áhafnir eða farþegar, um borð í íslenskum skipum á siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, mega kjósa um borð í þeim. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir er þá kjörstjóri. Þeir sem eru til meðferðar á sjúkrahúsi eða eru vistmenn á dvalaheimilum er heimilt að greiða atkvæði á stofnunni og kjósandi sem ekki getur sótt kjörfund á kjördag vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×