Sport

Þóra Björg til Kolbotn

Aðalmarkvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, Þóra Björg Helgadóttir, gerði rétt fyrir helgi samning við norska úrvalsdeildarliðið Kolbotn. Til stóð að ganga frá samningnum mun fyrr en ýmis vandkvæði gerðu það að verkum að ekki var skrifað undir fyrr en nú. Þóra hefur varið mark KR-inga undanfarin tvö ár en lék áður með Breiðabliki þar sem hún er uppalin en með þessum tveimur liðum hampaði hún ófáum titlunum. Þóra kemur til með að verða lögleg með Kolbotni 1. júlí en þá opnast leikmannamarkaðurinn að nýju. Hún á fyrir höndum harða samkeppni því með Kolbotni leikur einnig norski landsliðsmarkvörðurinn, Bente Nordby, en sá orðrómur er í gangi að hún ætli sér að yfirgefa félagið að aflokinni yfirstandandi leiktíð. Þóra er ekki fyrsta íslenska knattspyrnukonan sem leikur með Kolbotni því Katrín Jónsdóttir lék með því í ein sex ár og varð meðal annars norskur meistari með liðinu fyrir tveimur árum síðan, og er það fyrsti og eini meistaratitill liðsins. Katrín lagði síðan skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. Þegar sex umferðum er lokið í deildakeppninni er Kolbotn í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Örnunum frá Þrándheimi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×