Körfubolti

KR-ingar vilja fá fleiri í húsið en árið 2009

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Svona var umgjörðin árið 2009. Setið alls staðar eins og þessi frábæra mynd Daníels Rúnarssonar sýnir. Það verður endurtekning á þessari stemningu á sunnudag.
Svona var umgjörðin árið 2009. Setið alls staðar eins og þessi frábæra mynd Daníels Rúnarssonar sýnir. Það verður endurtekning á þessari stemningu á sunnudag.
KR-ingar eru komnir á fullt í undirbúningi fyrir oddaleikinn í Dominos-deild karla sem fer fram í Vesturbænum á sunnudagskvöldið. Þá spila KR og Grindavík hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er bara hátíð í bæ og þetta verður svakalega gaman. Við ætlum að ná upp sömu stemningu og í leiknum gegn Grindavík árið 2009 og viljum helst fá fleiri í húsið en þá,“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs KR, en 2.500 manns voru á leiknum eftirminnilega fyrir átta árum síðan.

Miðasala hefst á netinu strax í dag og verður hægt að finna hana inn á heimasíðu KR, kr.is.

„Svo munum við setja upp palla fyrir aftan báðar körfurnar og gera það sem þarf til að sem flestir geti notið þessa sögulega leiks. Það er enginn búinn að gleyma stemningunni 2009 og það vill örugglega enginn missa af þessum viðburði heldur,“ segir Böðvar.

Miðasala á staðnum mun hefjast klukkan 15.00 og verður grillað í KR-heimilinu frá klukkan 16.00 þannig að þeir sem vilja geta tekið daginn snemma í Vesturbænum.

Fannar Ólafsson lyftir bikarnum eftir leikinn fyrir átta árum síðan.vísir/daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×