Erlent

Frakkar hefja loftárásir í Sýrlandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Loftárásir Frakka í Írak hafa staðið yfir síðastliðið ár.
Loftárásir Frakka í Írak hafa staðið yfir síðastliðið ár. Vísir/Getty
Frakkar hafa hafið loftárásir gegn liðsmönnum Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Frakklands segir að sprengjur frönsku vélanna hafi hæft skotmörk sem tekin hafi verið saman í yfirlitskönnun undanfarnar tvær vikur.

Frakkar hófu loftárásir gegn liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna fyrir nær akkúrat einu ári en hafa til þessa einungis varpað sprengjum á svæði í Írak, líkt og Bretar hafa einnig gert. Francois Hollande Frakklandsforseti lýsti því þó yfir fyrr í mánuðinum að til stæði að senda þotur til Sýrlands.

Hollande sagði við það tilefni að í Sýrlandi hefði verið lagt á ráðin um hryðjuverkaárásir gegn Frökkum.

„Við munum bregðast við í hvert sinn sem okkar þjóðaröryggi er að veði,“ segir í tilkynningunni frá í gær.

Rúmlega 200 þúsund Sýrlendingar hafa fallið í borgarastyrjöldinni þar í landi frá árinu 2011. Um það bil fjórar milljónir manna hafa flúið land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×