Um­fjöllun: Slóvenía - Ís­land 18-23 | Himneskur Viktor og ís­lensk vörn í lykil­sigri á HM

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Ýmir Örn Gíslason var algjör stríðsmaður í vörn Íslands í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason var algjör stríðsmaður í vörn Íslands í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Slóvenía og Ísland mættust í algjörum lykilleik á HM karla í handbolta í Zagreb í kvöld. Ísland vann fimm marka sigur og fer með fjögur stig í milliriðlakeppnina.

Frammistaðan í kvöld, og þá sérstaklega fyrri hálfleikur, fékk mann til að trúa því að Ísland yrði heimsmeistari. Frammistaðan í fyrri hálfleiknum var með hreinum ólíkindum og þá sérstaklega hjá íslensku vörninni, með Elvar Örn Jónsson í miklum ham, og Viktori Gísla Hallgrímssyni sem var nánast ómannlegur í markinu og varði 10 af 18 skotum.

Munurinn hefði vel getað verið átta mörk í hálfleik en Slóvenar áttu betri lokamínútu og var staðan 14-8 í hléi.

Þrátt fyrir áfall snemma í seinni hálfleik, þegar Elvar var rekinn af velli, hélt íslenska liðið út í seinni hálfleinum og vann að lokum stórkostlegan fimm marka sigur, 23-18. Og maður leiksins var svo sannarlega Viktor Gísli sem varði oft ótrúlega og endaði með um helmingsmarkvörslu, gegn sterkum mótherjum þegar svo mikið var í húfi.

Viktor Gísli Hallgrímsson verður eflaust í martröðum Slóvena eftir leikinn í kvöld.VÍSIR/VILHELM

Það sást strax frá byrjun að Snorri þjálfari og hans menn voru búnir að stúdera sóknarleik Slóvena kyrfilega. Fyrsta mark Slóveníu kom ekki fyrr en eftir fjórar mínútur, og þeir skoruðu raunar aðeins fjögur mörk á fyrstu tuttugu mínútum leiksins!

Elvar batt vörnina saman með svakalegum leik og þeir Ýmir hófu leik í miðri vörninni, með Janus, Viggó, Orra og Óðin með sér.

Eftir tvö mörk Íslands úr hraðaupphlaupum tóku Slóvenar leikhlé, í stöðunni 4-1, þar sem Uros Zorman þjálfari þeirra var gjörsamlega brjálaður og hellti sér yfir sína menn. Hann virtist í raun fátt hafa annað í huga en að reyna að vekja þá til lífsins með gríðarlegum reiðiöskrum.

Viggó Kristjánsson í árekstri við markvörð Slóvena.VÍSIR/VILHELM

Þetta virtist ætla að hafa einhver áhrif, og munurinn fór í 5-4 eftir brottvísanir á Viggó og Ými, en þá komu Aron og Gísli inn í sóknarleik Íslands. Viktor Gísli átti svo tvær heimsklassamarkvörslur í röð og Elvar jók muninn fljótlega í fimm mörk, 9-4.

Aron stal boltanum í tvígang, og kom Íslandi í 11-4, svo Slóvenar neyddust þá til að taka sitt annað leikhlé, eftir aðeins tuttugu mínútna leik. Þá var Zorman rólegri en á þessum tímapunkti var Ísland búið að stela boltanum sjö sinnum í leiknum og Viktor Gísli búinn að vera magnaður. Höfum í huga að Slóvenar voru í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í ágúst, og í 6. sæti á EM fyrir ári síðan!

Ísland fékk öflugan stuðning úr stúkunni frá skrautlegum áhorfendum.VÍSIR/VILHELM

Viktor hélt áfram að fara á kostum út hálfleikinn, dyggilega studdur af fólkinu í stúkunni. Eini erfiði kaflinn var þegar Elvari var vísað af velli í tvær mínútur, en Aron bætti við tveimur mörkum og þrátt fyrir að lokaskot hans klikkaði, og að Slóvenar skoruðu síðasta markið fyrir hlé, var munurinn þá sex mörk eins og fyrr segir, 14-8.

Elvar Örn Jónsson var í risahlutverki þar til hann var rekinn af velli snemma í seinni hálfleik.VÍSIR/VILHELM

Það var alveg á tæru að Slóvenar myndu mæta brjálaðir inn í seinni hálfleikinn, enda mikilvægi leiksins gríðarlegt upp á möguleikann á að komast í 8-liða úrslit.

Elvar fékk aftur brottvísun í upphafi seinni hálfleiks, þegar hann togaði aftan í Domen Makuc, en Viktor Gísli hélt áfram að verja. Sóknarleikur íslenska liðsins var hins vegar afskaplega stirður og erfiðlega gekk að ná svo mikið sem skoti á markið.

Aron Pálmarsson átti afar góða innkomu þegar hann mætti til leiks eftir korters leik.VÍSIR/VILHELM

Áfall dundi svo á Íslendingum eftir fimm mínútur af seinni hálfleik. Þá fóru spænskir dómarar leiksins í skjáinn og komust einhvern veginn að þeirri niðurstöðu að veita Elvari þriðju brottvísunina í leiknum, og þar með rautt spjald. Verstu hugsanlegu tíðindi sem hugsast gat fyrir íslenska liðið, eða hvað?

Viktor Gísli blés mönnum strax byr í brjóst með því að verja vítakast, og Aron fyrirliði skoraði svo gríðarlega mikilvægt mark og hjó á svakalegan hnút í sóknarleik Íslands, með fyrsta markinu eftir tæpar sjö mínútur í seinni hálfleik, þegar hann kom Íslandi í 15-9. Með lokakaflanum í fyrri hálfleik höfðu liðið heilar tíu mínútur án íslensks marks þegar Aron lyfti sér upp og negldi í markið.

Janus Daði Smárason með skot að marki Slóvena.VÍSIR/VILHELM

Með brotthvarfi Elvars þurfti Ýmir að láta enn meira til sín taka í vörninni, og það gerði hann með góðum stuðningi. Slóvenar komust einfaldlega lítið áfram og fóru að láta mótlætið fara verulega í taugarnar á sér. Barcelona-stjarnan Blaz Janc fékk til að mynda brottvísun bara fyrir mótmæli.

Gísli Þorgeir Kristjánsson í hörðum slag.VÍSIR/VILHELM

Viggó fiskaði ruðning og skoraði yfir allan völlinn, og kom muninum í níu mörk, 19-10. Viktor Gísli varði lítið á þessum tímapunkti, en þegar þess þurfti þá var hann alltaf mættur með fulla vatnsfötu til að slökkva vonarneista Slóvena.

Eftir mótmæli og brot misstu Slóvenar tvo menn af velli á 50. mínútu, í stöðunni 20-13, og Zorman tók þá sitt þriðja og síðasta leikhlé.

Elliði náði að auka muninn í átta mörk en svo komu þrjú mörk í röð frá Slóvenum, sem minnkuðu muninn í 21-16. Þeir náðu þó ekki að minnka muninn nema í fimm mörk og lokatölur urðu 23-18.

Ísland fer því ekki bara með fjögur stig inn í milliriðil, heldur góða markatölu fyrir mikil átök við Króata, Egypta og Argentínumenn. Tvö sæti eru í boði í 8-liða úrslitum og Ísland á nú mikla möguleika á að komast þangað. Fyrsti leikur í milliriðli verður á miðvikudaginn.

Viðtöl, einkunnir, pistill frá Zagreb og fleira er væntanlegt hér á Vísi í dag og næstu daga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira