Innherji

Á­byrgðin er borgar­stjóra

Ráðgjafinn skrifar
Ráðgjafinn mynd

Skipulagsskelfingin við Álfabakka er skýr birtingarmynd bágrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.

Sala byggingarréttar á svæðinu skilaði borginni um milljarði króna. Reykjavíkurborg hefur verið illa rekin um langt skeið og virðist örvæntingin eftir þessum tekjum hafa ráðið því að eðlilegir verkferlar voru látnir lönd og leið. Kjörnir fulltrúar fengu engar kynningar að heitið geti á verkefninu, og ekkert tillit var tekið til íbúa á svæðinu.

Verkefnið var á forræði skrifstofu borgarstjóra. Einar Þorsteinsson hefur stært sig af meintum umbótum í rekstri borgarinnar, en þeir sem til þekkja sjá hið augljósa. Hvergi hefur verið skorið niður heldur þvert á móti gefið í hvað kostnað varðar. Það „rekstrarhagræði“ sem vísað er til er einkum til komið vegna einskiptistekna – með öðrum orðum sölu eigna borgarinnar og byggingarréttar.

Örvæntingin eftir einskiptistekjunum var slík að öllu eðlilegu verklagi var kastað út í hafsauga.

Einar Þorsteinsson hefur að mestu farið huldu höfði í málinu, en getur ekki lengur bent á forvera sinn eða Dóru Björt Guðjónsdóttur, formann skipulagsráðs. Álfabakkagímaldið varð til á skrifstofu borgarstjóra. Örvæntingin eftir einskiptistekjunum var slík að öllu eðlilegu verklagi var kastað út í hafsauga.

Einar er ekki lengur nýi strákurinn eins og einhver komst að orði. Hann er borgarstjóri og ætti að axla ábyrgð á verkinu í stað þess að benda á kollega sína.

Höfuðlaus her

Og áfram í borgarstjórn. Athygli vakti á síðasta borgarstjórnarfundi að meirihlutinn lagði ekki eina einustu tillögu fyrir fundinn. Kunnugir segja að um einsdæmi sé að ræða.

Meirihlutinn virðist hanga saman á lyginni einni saman. Allir eru á flótta undan Álfabakkamálinu, Samfylkingin höfuðlaus her við brotthvarf Dags B. Eggertssonar og eftirmaðurinn atkvæðalítil.

Miðað við úrslit Alþingiskosninganna búa bæði borgarstjóri og fulltrúar Pírata við takmarkað starfsöryggi.

Steininn þótti þó taka úr með tillöguleysinu og til marks um að meirihlutinn geti ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Framhaldið verður athyglisvert en miðað við úrslit Alþingiskosninganna búa bæði borgarstjóri og fulltrúar Pírata við takmarkað starfsöryggi. Ljóst er að róttækra aðgerða er þörf ef það á að breytast.


Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×