Tottenham á­fram í undan­úr­slit eftir sjö marka leik með mörgum mis­tökum

Dominic Solanke og Jonny Evans komust báðir á blað í kvöld.
Dominic Solanke og Jonny Evans komust báðir á blað í kvöld. Alex Pantling/Getty Images

Tottenham er komið áfram í undanúrslit enska deildarbikarsins eftir 4-3 sigur gegn Manchester United, í leik sem einkenndist af mörgum markmannsmistökum. 

Tottenham ógnaði meira í upphafi leiks og tók forystuna eftir stundarfjórðung. Markmaður Manchester United, Altay Bayindir, sló þá langskot frá Pedro Porro beint út í teiginn og Solanke fylgdi eftir.

Leikurinn var annars í ágætis jafnvægi í fyrri hálfleik og færi á báða bóga, en hvorugu liði tókst að skapa sér neitt stórhættulegt. Staðan 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst síðan afar illa fyrir United.

Fyrst mistókst Lisandro Martinez að hreinsa fyrirgjöf úr teignum og boltinn datt fyrir Dejan Kulusevski sem smellti honum í netið og kom Tottenham tveimur mörkum yfir.

Aðeins tíu mínútum síðar skoraði Dominic Solanke svo sitt annað mark og það þriðja í heildina hjá Tottenham. Hann fékk háa sendingu í hlaupaleiðina inn fyrir vörnina, kom sér á hægri fótinn og kláraði færið af öryggi.

United minnkaði muninn á 63. mínútu eftir mistök í öftustu línu Tottenham. Markmaðurinn Fraser Forster átti misheppnaða sendingu á miðvörðinn Radu Dragusin, sem Bruno Fernandes las vel og stal boltanum, hann lagði svo út á Joshua Zirkzee sem kláraði færið.

Fraser Forster gaf tvö mörk.Marc Atkins/Getty Images

Fraser Forster gaf gestunum svo annað mark skömmu síðar. Hann hafði boltann í löppunum og tók allt of langan tíma í að losa sig við hann. Amad Diallo var öflugur í pressunni og tókst að tækla boltann í netið.

Markmannsmistökunum linnti ekki, en sem betur fer fyrir Fraser Forster gerði hann ekki fleiri. Kollegi hans hjá Manchester United, Altay Bayindir, fékk mark á sig beint úr hornspyrnu.

Heung Min-Son sveiflaði spyrnunni að marki, Bayindir vildi meina að brot hafi átt sér stað þegar hann stökk upp í boltann en hann fékk ekkert fyrir sinn snúð frá dómaranum.

Bayindir fékk boltann yfir sig úr horni.Mike Egerton/PA Images via Getty Images

United átti eftir að klóra í bakkann einu sinni enn, Jonny Evans minnkaði muninn í 4-3 á fjórða mínútu uppbótartíma en þar við sat og Tottenham heldur áfram í undanúrslit enska deildarbikarsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira