Sport

Glódís Perla lagði upp í sigri á Juve í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München unnu mjög öruggan sigur í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München unnu mjög öruggan sigur í kvöld. Getty/Daniela Porcelli

Íslendingarliðin Bayern München og Vålerenga voru í eldlínunni í Meistaradeild kvenna í fótbolta í kvöld en uppskeran var mjög ólík,

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München unnu 4-0 sigur á ítalska félaginu Juventus á heimavelli.

Sædís Rún Heiðarsdóttir og félagar hennar í Vålerenga þurftu á sama tíma að sætta sig við 3-1 tap fyrir enska félaginu á heimavelli sínum.

Glódís Perla spilaði allan leikinn í vörn Bayern en mörk liðsins skoruðu þær Jovana Damnjanovic á 22. mínútu, Pernille Harder á 53. mínútu, Klara Bühl á 73. minútu og Alara Sehitler á 82. mínútu.

Glódís lagði upp þriðja markið fyrir Bühl.

Sædís Rún var líka í byrjunarliðinu en mörk Arsenal skoruðu þær Alessia Russo (2) og Frida Maanum. Caitlin Foord lagði upp tvö markanna. Tilde Lindwall minnkaði muninn fyrir norska félagið.

Sædís var tekin af velli á 59. mínútu en þá var Arsenal búið að skora þrjú mörk.

Bayern er í efsta sæti riðilsins með 13 stig eða einu stigi meira en Arsenal. Vålerenga er á botni riðilsins með eitt stig, tveimur minna en Juventus. Bæði Bayern og Arsenal eru komin áfram í átta liða úrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×