Sport

Ní­tján ára skíðakona látin eftir slys á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matilde Lorenzi hefði haldið upp á tvítugsafmælið sitt í næsta mánuði.
Matilde Lorenzi hefði haldið upp á tvítugsafmælið sitt í næsta mánuði. x

Ítalska skíðakonan Matilde Lorenzi lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í gær eftir að hafa fallið illa á æfingu.

Lorenzi var enn bara nítján ára gömul en hún hefði haldið upp á tvítugsafmælið sitt 15. nóvember næstkomandi. Slysið varð á æfingu á norður Ítalíu.

Lorenzi var efnileg skíðakona en hún féll mjög illa í G1 brekkunni á Val Senales skíðasvæðinu í suður Týrol. Lorenzi missti stjórn á sér í ferð niður brekkuna og skall mjög illa með höfuðið í harðan snjóinn. Henni var strax komið til bjargar og flutt á sjúkrahús en það var strax ljóst að meiðsli hennar voru mjög alvarleg.

Seinna bárust síðan fréttir af því að ekki hafi tekist að bjarga lífi hennar á sjúkrahúsinu.

Meðal þeirra sem sendu samúðarkveðjur var bandaríska skíðagoðsögnin Lindsey Vonn. „Þetta er mjög sorglegt og mikill missir. Ég sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar,“ skrifaði Lindsey Vonn í sögu á Instagram reikningi sínum.

Það eru fleiri skíðastjörnur sem hafa minnst hennar eins og ítalski Ólympíufarinn Luca De Aliprandini, spænski Ólympíufarinn Juan del Campo og svissneski Ólympíufarinn Michelle Gisin.

Það gerði líka hin bandaríska stórstjarnan Mikaela Shiffrin. „Sendi alla mína ást til fjölskyldu hennar, vina og liðsfélaga,“ skrifaði Shiffrin.

Lorenzi var ítalskur unglingameistari á síðasta ári og hún endaði í sjötta sæti í bruni á HM unglinga í fyrra og í áttunda sæti í stórsvigi. Hún sérhæfði sig í hraðagreinunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×