Viðskipti innlent

Fundurinn virðist ekki hafa aukið trú fjár­festa

Árni Sæberg skrifar
Play á ekki sjö dagana sæla í Kauphöllinni.
Play á ekki sjö dagana sæla í Kauphöllinni. Vísir/Vilhelm

Gengi bréfa í Play féll um tæp þrettán prósent í dag og verð á bréfum í félaginu er nú 0,82 krónur á hlut. Sú var staðan þegar lokað var fyrir viðskipti með bréf í Kauphöllinni á fjórða tímanum í dag. Í gær birti félagið uppgjör þar sem kom fram að hagnaður á þriðja ársfjórðungi hefði dregist saman um þriðjung milli ára. Forstjóri félagsins kynnti grundvallarbreytingar á rekstrarmódeli félagsins á fundi í gær.

Í uppgjörinu sagði að Play hefði hagnast um hálfan milljarð króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um 724 milljónir króna.

Í tilkynningu um uppgjörið til Kauphallar sagði sömuleiðis að félagið skoðaði að ráðast í hlutafjáraukningu og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi, sem sótt hefur verið um á Möltu.

Lækkað um 97 prósent á þremur árum

Gengi Play hefur verið á nokkuð hraðri niðurleið undanfarið. Dagana eftir að tilkynnt var að afkoma hefði verið lakari en búist hafði verið við og að félagið hefði sótt um flugrekstrarleyfi á Möltu á dögunum lækkaði gengið hressilega. Daginn eftir nam lækkunin 28,13 prósentum og hinn daginn 26,09 prósentum. Þá fór gengið lægst niður í eina krónu.

Gengið fór fyrst niður fyrir eina krónu á þriðjudaginn og stendur nú í 0,82 krónum á hlut. Þó er vert að taka fram að 12,77 prósenta lækkun dagsins varð í svo gott sem engum viðskiptum með bréfin. Sýslað var með bréf í félaginu 75 sinnum í dag og veltan nam aðeins 16 milljónum króna.

Fyrir rétt liðlega þremur árum, þann 14. október árið 2021, var gengi Play hæst þegar það stóð í 29,2 krónum. Það gerir lækkun upp á um 97 prósent á þremur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×