Viðskipti innlent

At­vinnu­leysi tvö­faldaðist í septem­ber

Kjartan Kjartansson skrifar
Hlutfall starfandi lækkaði aðeins á milli mánaða í september og var rúm 79 prósent.
Hlutfall starfandi lækkaði aðeins á milli mánaða í september og var rúm 79 prósent. Vísir/Vilhelm

Hlutfall atvinnulausra tvöfaldaðist á milli mánaða í september og var 5,2 prósent þegar leiðrétt hefur verið fyrir árstíðarbundnum sveiflum. Vinnumálastofnun segist ekki sjá sömu þróun í sínum gögnum.

Alls voru um 12.700 manns á aldrinum 16-74 ára atvinnulausir í september samkvæmt árstíðarleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar sem voru birtar í morgun. Mælt atvinnuleysi var 4,6 prósent en 5,2 árstíðarleiðrétt.

Hlutfall starfandi í mánuðinum var 79,2 prósent og lækkaði um 2,3 prósentustig á milli mánaða. Atvinnuþátttaka var 83,5 prósent og breyttist nánast ekkert frá ágúst til september.

Vinnumálastofnun sendi frá sér tilkynningu um tölur Hagstofunnar eftir að þær birtust í morgun þar sem mánaðarskýrsla hennar sýnir ekki sömu þróun atvinnuleysis. Stofnanirnar tvær voru þar sagðar nota mismunandi aðferðir sem gætu skýrt hvers vegna þær fengju út ólíkar niðurstöður.

Aðferð Vinnumálastofnunar byggist á því að reikna meðalfjölda atvinnulausra á skrá yfir mánuðinn, þá eingöngu þá sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum og reikna atvinnuleysi út frá því. Hagstofan byggir sínar tölur á vinnumarkaðskönnun þar sem haft sé samband við úrtak úr Þjóðskrá.

„Hjá Vinnumálastofnun sjáum við enn sem komið er engin skýr merki um að atvinnuleysi sé að aukast umfram eðlilegar árstíðarsveiflur,“ segir í tilkynningu Vinnumálstofnunar sem segist fylgjast áfram með þróun næstu mánaða.

Fréttin var uppfærð eftir að Vinnumálastofnun gaf út tilkynningu um tölur Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×