Lífið

Michael Newman látinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Michael Newman ásamt Donna D'Errico og Traci Bingham.
Michael Newman ásamt Donna D'Errico og Traci Bingham. Getty

Baywatch-stjarnan Michael Newman er látinn 68 ára að aldri. Hann hafði glímt við Parkinsons frá árinu 2006.

People greinir frá andlátinu, og segir hann hafa fallið frá þann 20. október, umvafinn vinum og fjölskyldu. Banameinið mun hafa verið tengt hjartavandamálum.

Í sjónvarpsþáttunum vinsælu, Baywatch, lék Newman samnefnda persónu, baðvörðinn Michael „Newmie“ Newman. Hann var í raun eini raunverulegi baðvörðurinn í seríunni, og starfaði sem slökkviliðsmaður meðfram leikarastarfinu. Og eftir að Baywatch leið undir lok hélt Newman áfram að starfa í slökkviliðinu.

Newman kom fram í 150 þáttum af Baywatch, en einungis David Hasselhoff kom fram í fleiri þáttum.

Michael Newman skilur eftir sig eiginkonu til 36 ára, Söruh, en saman áttu þau tvö börn Chris og Emily.

Líkt og áður segir hafði Newman glímt við Parkinsons sjúkdóminn um margra ára skeið, en hann var fimmtugur þegar hann greindist með sjúkdóminn. Hann vakti athygli á sjúkdómnum og safnaði pening í báráttunni við hann ásamt Hollywood-leikaranum Michael J. Fox, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Marty McFly í Back to the Future.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×