Viðskipti innlent

Oculis rauk upp eftir til­kynningu

Árni Sæberg skrifar
Einar Stefánsson hringdi Kauphallarbjöllunni í apríl. Hann hefur byggt upp Oculis ásamt Þorsteini Loftssyni frá stofnun árið 2003.
Einar Stefánsson hringdi Kauphallarbjöllunni í apríl. Hann hefur byggt upp Oculis ásamt Þorsteini Loftssyni frá stofnun árið 2003. Vísir/Vilhelm

Gengi hlutabréfa augnlyfjafyrirtækisins Oculis rauk upp um tæplega tíu prósent í dag. Í morgun tilkynnti félagið að innritunum þátttakenda í rannsóknum á lyfinu OCS-01 hefði verið flýtt verulega.

Rannsóknirnar tvær, sem kallaðar eru DIAMOND 1 og 2, sem stendur fyrir DIAbetic Macular edema patients ON a Drop, eru gerðar til að kanna virkni augndropa félagsins við sjúkdómi sem veldur sjónleysi hjá sykursjúkum. Lyf við sjúkdómum hafa hingað til aðeins verið fáanleg í sprautuformi.

Í tilkynningunni í morgun segir að innritanir í rannsóknirnar hafi gengið vel frá lokum annars ársfjórðungs 2024 og nú hafi um 70 prósent skráð sig í DIAMOND 1 og um 40 prósent í DIAMOND 2.

Fjórðungshækkun frá skráningu

Svo virðist sem fjárfestar hafi tekið vel í tilkynninguna en gengi félagsins hækkaði hægt og rólega í allan dag í viðskiptum upp á tæpan milljarð króna. Dagslokagengið er 9,84 prósentum hærra en það var í gær. 

Félagið var skráð á markað hér á landi þann 23. apríl og gengi hlutabréfa þess hefur nú hækkað um 25,44 prósent frá skráningu.

Skaga gekk líka vel

Af öðrum félögum í Kauphöllinni er helst að segja að gengi bréfa í Skaga, sameinuðu félagi VÍS og Fossa, hækkaði um 4,17 prósent í dag. Þá hækkaði Eik um 3,23 prósent og Síminn um 2,91 prósent.

Gengi Icelandair lækkaði mest í dag, um 1,26 prósent. Þar á eftir voru Iceland Seafood International, sem lækkaði um 0,99 prósent og Marel, um 0,75 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×