Körfubolti

Fékk öskurskilaboð frá Steph Curry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Sabrina Ionescu þegar þau kepptu við hvort annað í þriggja stiga keppni á Stjörnuleik NBA.
Stephen Curry og Sabrina Ionescu þegar þau kepptu við hvort annað í þriggja stiga keppni á Stjörnuleik NBA. Getty/Stacy Revere

Sabrina Ionescu skoraði eina stærstu körfu tímabilsins þegar hún tryggði New York Liberty sigur á Minnesota Lynx í þriðja leik úrslitaeinvígi WNBA deildarinnar í körfubolta.

Liberty hefur aldrei orðið WNBA meistari en vantar nú aðeins einn sigur til að enda þá löngu bið. New York gæti líka eignast sína fyrstu körfuboltameistara síðan að New York Knicks vann árið 1973, fyrir meira en hálfri öld síðan.

Ionescu var mikil vinkona Kobe heitins Bryant og dóttur hans Gigi. Tilþrif hennar í sigurkörfunni þóttu minna á ofursjálfstraust Kobe því hún tók skotið af mjög löngu færi.

Ionescu á fleiri öfluga skotmenn sem vini og þar á meðal er NBA stórstjarnan Stephen Curry.

Ionescu sagði frá skilaboðum sem hún fékk frá Curry eftir leikinn. Hún var spurð um hver hefðu verið bestu skilaboðin sem hún fékk eftir hetjudáðir sínar og svarið voru skilaboðin frá stórskyttu Golden State Warriors.

„Steph Curry sendi mér mjög fyndin talskilaboð þar sem hann bara öskraði í símann,“ sagði Ionescu.

„Það var mjög fyndið af því að við náum mjög vel saman og hann hefur verið mikill læriföður fyrir mig. Hann hefur hjálpað mér mikið bæði andlega og líkamlega. Talað um að vera klár og einbeitt á verkefnið,“ sagði Ionescu eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×