Körfubolti

„Borgarnes-Bjarni grjót­harður í þessum leik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson tók við Stjörnunni í vor.
Baldur Þór Ragnarsson tók við Stjörnunni í vor. Vísir/Diego

Baldur Þór Ragnarsson stýrði Stjörnunni til sigurs í sínum fyrsta keppnisleik síðan hann tók við liðinu í sumar. Stjörnumenn réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta leik nýja þjálfarans og unnu 14 stiga sigur gegn Íslandsmeisturum Vals.

„Tilfinningin er auðvitað bara mjög góð. Það er alltaf gaman að vinna körfuboltaleiki og ég er bara mjög sáttur með sigurinn,“ sagði Baldur í leikslok.

Eftir erfiða byrjun í leiknum náði Stjörnumenn forystunni og héldu henni stærstan hluta leiksins. Stjörnuliðinu tókst þó aldrei að hrista Íslandsmeistarana alveg af sér.

„Þetta Valslið er auðvitað bara gott, Kiddi [Kristinn Pálsson] að setja hrikalega erfið skot bara allan leikinn og Taiwo [Badmus] var erfiður. Það var bara erfitt að búa til forskot hérna. Þetta er gott lið og þetta voru tvö góð körfuboltalið að mætast.“

Þrátt fyrir að áðurnefndur Taiwo Badmus hafi endað leikinn með 27 stig fyrir Val átti hann lengi vel í miklum erfiðleikum gegn Bjarna Guðmanni Jónssyni sem spilaði virkilega góðan varnarleik í kvöld.

„Bjarni gerði hrikalega vel í þessum leik. Ef þú beitir orku í leik þá var það Bjarni sem gerði það. Borgarnes-Bjarni grjótharður í þessum leik og sýndi frábæra spilamennsku.“

Þá segir Baldur það gríðarlega mikilvægt, bæði fyrir sig og liðið í heild, að byrja samstarfið á jafn sterkum sigri og í kvöld.

„Já, það er alltaf gaman að vinna og að ná að klára svona hörkuleik eins og í kvöld,“ sagði Baldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×