Umræðan

Virði hluta­bréfa á móti hag­sveiflu­leið­réttum hagnaði ekki hærra síðan í febrúar

Brynjar Örn Ólafsson skrifar

Talsverð hækkun var í september á hlutfalli virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar á Íslandi (OMXI15) sem endaði í 26,1. Hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan í febrúar síðastliðnum en hækkunin gerist á sama tíma og ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hefur farið ört lækkandi. Hækkunin hlutfallsins er á breiðum grunni en leidd af verðþróun Íslandsbanka, Marel og Icelandair.

Enn meiri hækkun var í hefðbundnu V/H hlutfalli, hlutfalli virðis á móti hagnaði síðastliðinna tólf mánaða, sem endaði september í 33 en svo hátt hefur það ekki verið síðan í ágúst árið 2021, þegar ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa var um 3,3 prósent.

Vegna þessa hefur arðsemiskrafa til hagnaðar hlutafélaganna farið lækkandi, samhliða lækkun kröfu til óverðtryggðra ríkisskuldabréfa sem lækkaði úr 7,1 prósent í 6,8 prósent í september, ásamt því að verðbólguálag til fimm ára lækkaði í um 3,5 prósent.

Nýjustu tölur um vísitölu neysluverðs gefa til kynna hjöðnun verðbólgu sem var um 5,4 prósent í september, en á móti sýna nýjustu gildi fyrir árstíðaleiðrétt atvinnuleysi að framleiðsluspenna er enn mikil í hagkerfinu. Til samanburðar er verðbólga í Bandaríkjunum um 2,5 prósent, og ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa var um 3,55 prósent í nýliðnum mánuði.

Nýjasta CAPE-hlutfallið fyrir bandarísku hlutabréfavísitöluna S&P 500 er 35,2 samkvæmt hagfræðingnum Robert J. Shiller. Það gefur til kynna að verðlagning á íslenska markaðinum taki tillit til hærra vaxtastigs en CAPE er enn umtalsvert yfir sögulegu meðaltali.


Höfundur er hagfræðingur.

Nánar um CAPE:

Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.

Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.






×