Áskorun

Þrá­hyggja og á­rátta: „Er ég barnaníðingur? Slökkti ég örugg­lega á elda­vélinni?“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þráhyggja og árátta liggur meira í sumum fjölskyldum en öðrum og svo getur erfið reynsla haft áhrif, segir Sóley Dröfn Davíðsdóttir sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og tekur fjölmörg dæmi um birtingarmyndir þráhyggju og áráttu.
Þráhyggja og árátta liggur meira í sumum fjölskyldum en öðrum og svo getur erfið reynsla haft áhrif, segir Sóley Dröfn Davíðsdóttir sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og tekur fjölmörg dæmi um birtingarmyndir þráhyggju og áráttu. Vísir/Vilhelm

„Við fáum öll óþægilegar hugsanir öðru hvoru. Sumar eru virkilega ógeðfelldar eins og að henda ungabarninu sínu í gólfið eða farþega út úr bíl á ferð,“ segir Sóley Dröfn Davíðsdóttir sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og útskýrir að þótt hugsanirnar séu ógeðfelldar, þá sé eðlilegt að þær skjóti stundum upp kollinum.

„Flest okkar hristum þessar hugsanir af okkur og höfum svo ekki áhyggjur af þeim meir. Í mesta lagi hugsum við: Bíddu, hvað var nú þetta eiginlega? Svolítið hissa á því hvernig svona skrýtin og ógeðfelld hugsun gat skotið upp kollinum. En síðan er það bara búið.“

Já hjá okkur flestum.

En ekki öllum.

Því um 2% fólks festist í greipum þráhyggju og áráttu. Eitthvað sem á ensku kallast OCD.

Og þá getur lífið orðið að hálfgerðri martröð.

„Fólk heldur jafnvel að það sé geðveikt og óttast að það geti gert eitthvað slæmt. En það má rjúfa þennan vítahring með réttri meðferð.“

Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Í dag fræðumst við um þráhyggju og áráttu.

Er ég barnaníðingur?

Sóley er yfirsálfræðingur Kvíðameðferðarstöðvarinnar og kennari í sérnámi um hugræna atferlismeðferð. Sérsvið Sóleyjar er kvíði og þunglyndi, sem skiljanlega getur fylgt þeim sem glíma við þráhyggju og áráttu.

En hver er munurinn á þráhyggju og áráttu og því að fá eitthvað á heilann?

„Það að fá eitthvað á heilann getur verið jákvætt og endurspeglað áhuga á málinu. Til dæmis þegar við verðum heltekin af nýrri viðskiptahugmynd,“ segir Sóley en bætir við:

„Þegar við erum hins vegar með þráhyggju og áráttu, líður okkur verulega illa. Vandinn er mjög hamlandi og getur tekið mikinn tíma og orku frá okkur á hverjum degi. Jafnvel nokkrar klukkustundir á dag.“

Það sem meira er; Fólk sem er með þráhyggju og áráttu, festist í óþægilegum hugsunum sem það fer að hafa miklar áhyggjur af.

Það geta einnig verið endalausar efasemdir sem sækja að fólki eða eitthvað hræðilegt sem það sér ljóslifandi fyrir sér. 

Hugsanir og efasemdir geta sótt á eins og: 

Sendi ég frá mér einhverja vitleysu í tölvupósti? 

Eða: Er ég barnaníðingur? 

Slökkti ég örugglega á eldavélinni?“ 

nefnir Sóley sem dæmi.

Staðreyndin er hins vegar sú að óþægilegar hugsanir geta skotist upp í hugann hjá öllum. 

Hjá þeim sem glímir við þráhyggju og áráttu, festast þessar hugsanir í sessi og verða að einhverju sem fólk hefur endalausar áhyggjur af.

„Sannleikurinn er hins vegar sá að þeir sem eru með þráhyggju og áráttu eru ólíklegastir allra til að valda skaða því þeir eru svo ábyrgir og velviljaðir.“

Sóley segir fullkomnunaráráttu geta ýtt undir þráhyggju og áráttu.

„Svo eru þeir sem eru svakalega ábyrgðarfullir líklegri til að þróa með sér vandann. Þráhyggja og árátta byrjar einmitt oft þegar ábyrgð eykst, til dæmis þegar einhver flytur að heiman eða eignast barn.

Þráhyggja og árátta getur tekið marga klukkutíma á dag. Til dæmis vegna þess að fólk er alltaf að þvo sér um hendurnar til að forðast sýkingu eða endalaust að athuga öll rafmagnstæki. Sóley segir mikinn létti fyrir fólk að losna undan þráhyggju og áráttu, enda þrái fólk að fá að lifa eðlilegu lífi.Vísir/Vilhelm

Læsti ég útidyrahurðinni?

Sóley segir vítahringinn oft erfiðan.

„Margir reyna að bæla óþægilegar hugsanir, sem gerir illt verra. Það verður eins að reyna alls ekki að hugsa um bleikan fíl. Þá getur maður ekki hugsað um annað.“

Sóley segir algengustu afbrigðin þó ekki endilega fela í sér áhyggjur af ógeðfelldum hugsunum.

Það sem er algengast er hegðun eins og að vera alltaf að gá að einhverju.

 Læsti ég útidyrahurðinni, tók ég rafmagnstækin úr sambandi og svo framvegis. Athuga þetta allt saman aftur og aftur. 

Eða keyra jafnvel til baka einhverja leið til að athuga hvort þú hafir nokkuð keyrt á einhvern í ógáti.“

Annað algengt dæmi af þráhyggju og áráttu tengist óttanum við smit og sýkla.

„Þá festist fólk í því að vera alltaf að þvo sér um hendurnar, eða að sótthreinsa umhverfið sitt og sjálft sig.“

Lítill munur er á körlum eða konum þegar kemur að algengi þráhyggju.

„Drengir eru aðeins líklegri sem börn að festast í vítahring þráhyggju og áráttu en svo jafnast þetta út á fullorðinsárunum; þá eru konur í aðeins meira mæli að greinast með vandann.“

En hvers vegna fáum við þráhyggju og áráttu?

„Það getur margt spilað inn í það. Þráhyggja og árátta liggur meira í sumum fjölskyldum en öðrum og svo getur erfið reynsla haft áhrif. Svo eru það þessir súperábyrgu aðilar sem gera ofurkröfur til sín sem þróa þetta frekar með sér,“ segir Sóley og bætir við:

„Fjölmiðlaumræða eða tíðarandinn í samfélaginu hefur líka áhrif á það hvers konar þráhyggju fólk þróar með sér. Við sáum það til dæmis í kjölfar #metoo byltingarinnar að sumir fóru þá að velta fyrir sér hvort þeir hefðu mögulega einhvern tíma gert eða sagt eitthvað sem gæti verið misskilið og einfaldlega festust í þeim hugsunum.“

Fólk sem er mjög ábyrgðarfullt er líklegra en annað til að þróa með sér þráhyggju og áráttu. Til dæmis fólk sem er nýbúið að eignast barn en fer að hafa áhyggjur af því að klúðra einhverju. Hjá öllum skjótast stundum fram ógeðfelldar og óþægilegar hugsanir stundum en hjá fólki sem þróar með sér þráhyggju og áráttu festast þær í sessi.Vísir/Vilhelm

Oh, ég vildi að amma væri ekki til…

Sóley segir mikla skömm oft fylgja þessum kvilla.

„Að vera með þráhyggju getur verið ótrúlega sárt fyrir fólk. Því það er oft að velta fyrir sér hlutum eins og: Hvað segja þessar hugsanir um mig? Það skammast sín fyrir hugsanirnar sem snúast um það versta sem það getur hugsað sér.“

Til viðbótar við skömmina, fylgir oft mikil hræðsla:

Fólk hugsar kannski hluti eins og: Hvað ef ég stekk fram af svölunum? 

Sem er það sem viðkomandi myndi síst vilja gera. En fólk fer að óttast að það gæti látið af hugsunum verða. 

Fyrir vikið verður það einfaldlega skíthrætt.“

Enn eitt sem kemur stundum í veg fyrir að fólk leiti sér hjálpar, er óttinn við álit annarra.

„Fólk er hrætt við að vera lokað inni og álitið hættulegt, ef það segir frá því hvernig hugsanir það fær. Samt eru þetta hugsanir sem allir fá við og við.“

Stundum fer fólk jafnvel að trúa því að það sé slæmt.

„Segjum til dæmis að barn reiðist ömmu sinni og hugsar: Ég vildi að amma væri ekki til. Síðan deyr amman. Barnið gæti haldið að það hafi valdið dauða ömmunnar með því sem það hugsaði“ segir Sóley og bætir við að svona hugarfar fylgi líka fullorðnu fólki:

„Sú hugmynd blundar í okkur að hugsun geti haft áhrif á það sem gerist, að maður geti „jinxað“ hlutum með því að hugsa sí og svo. Ef fólk er til dæmis beðið um að óska þess að einhver því nákominn deyi, kemur hik á marga, þótt þeir viti með skynseminni að hugsun ein og sér valdi ekki dauðsföllum.“

Fólk með þráhyggju og áráttu reynir oft að sporna við þeim með alls kyns leiðum. Sóley segir útkomuna oft verða algjöra steypu og fólk viti það sjálft. Í sumum tilfellum er hægt að losna úr vítahringnum með markvissri vinnu á fjögurra daga námskeiði.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin

Fyrst og fremst segir Sóley alla fræðslu hjálpa.

„Við vinnum út frá hugrænni atferlismeðferð sem í stuttu máli gengur út á að rjúfa vítahring þráhyggjunnar, hætta að næra „OCD-púkann“ með breyttum viðbrögðum. Fara að gera öfugt við það sem þráhyggjan vill, sækja í það sem espar upp þráhyggjuna og taka sénsinn.“

Það sem þetta þýðir að sögn Sóleyjar, er að óþægilegu hugsununum er leyft að koma án þess að brugðist sé við þeim.

„Það er mikilvægt að fólk viti að það megi ná bata því fólk getur orðið þunglynt af þessu með tíð og tíma. Þetta er svo erfið og einmanaleg barátta. Hjá þeim sem eru með væg einkenni þráhyggju eða þráhyggju, eða eru að byrja að þróa vandann með sér, getur fræðsla nægt til að snúa þróuninni við.

Þegar fólk leitar til fagfólks, er meðferðin hins vegar klæðskerasniðin hverjum og einum. Hjá Kvíðameðferðarstöðinni er til dæmis veitt bæði einstaklingsmeðferð við þráhyggju og áráttu og eins „fjögurra daga meðferð,“ þar sem unnið er markvisst með vandann yfir fjögurra daga tímabil.

Það er þá í tveggja til sex manna hópi.

„Þetta er í raunsérsniðin einstaklingsmeðferð í hóp. Hver og einn vinnur einslega með sínum sálfræðingi en hittir svo hóp inn á milli þar sem menn deila sigrum og áskorunum. Þetta er eins konar OCD-boot camp.“

Sóley segir vandann oftast hefjast í æsku, á unglingsárum eða snemma á fullorðinsárum, oft samfara aukinni ábyrgð í lífinu.

Til dæmis þegar fólk er nýbúið að eignast barn. 

Þá finnur það fyrir þeirri miklu ábyrgð sem því fylgir að vera foreldri. Þá getur það farið að óttast að klúðra einhverju, sér jafnvel fyrir sér það sem farið getur úrskeiðis. 

Þeir sem eru sérlega ábyrgðafullir og viðkvæmir þola slíkt illa og fara þá jafnvel að passa sig um of, sem síðan ýtir undir meiri þráhyggju og áráttu.

Sóley segir það auðvitað persónubundið hversu hratt fólk nær tökum á vandanum. Sumar breytingar gerast hratt í meðferð en aðrar taka aðeins meiri tíma. Það má oft ná skjótum bata ef fólk er tilbúið að leggja sig allt fram um að ná árangri og hefur til þess stuðning.

„Það fylgir því rosalegt frelsi fyrir fólk að losna undan þráhyggju og áráttu. Að þurfa ekki lengur að vera endalaust að þvo sér um hendurnar eða að gá endalaust að hinu og þessu. Þráhyggja og árátta getur tekið marga klukkutíma á dag.“

Sóley segir fólk oft með alls konar æfingar í huganum;  Að fara með bænir, halda hugsunum frá eða jafna þær út, hugsa til dæmis „hvít dúfa“ á eftir „svartur svanur.“

Þetta verður stundum algjör steypa og fólk veit það sjálft, en getur ekki annað. 

Það verður gríðarlegur munur þegar fólk þarf ekki lengur að vera alltaf að hugsa eða gera eitthvað sérstakt. 

Fólk biður ekki um meira en að fá frið til að lifa eðlilegu og jafnvel bara ósköp venjulegu lífi.“

Sóley segir árangur meðferða góðan. Um 70% fólks geti náð bata og 90% orðið betri en áður ef fólk fær faglega aðstoð og leggur sig fram í meðferð.

„Fólk getur náð góðum árangri þótt vandinn hafi verið til staðar lengi og það er aldrei of seint að leita sér aðstoðar. Þó er mikilvægt að koma ungmennum til aðstoðar fyrr en seinna, en ef fólk er yngra 18 ára sinnum við þeim á litlu Kvíðameðferðarstöðinni.“


Tengdar fréttir

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur.

Framhjáhöld: Annar rannsóknarlögga en hinn í hundakofann

„Sá sem verður fyrir því að makinn heldur framhjá vill fá að skoða alla þætti málsins aftur og aftur og ítrekað og oftar en ekki fer þessi aðili í rannsóknarlögguhlutverk um tíma,“ segir Íris Eik Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.