Tónlist

Slíðra sverðin og boða endur­komu sveitarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Liam og Noel Gallagher á tónleikum 1997.
Liam og Noel Gallagher á tónleikum 1997. Getty

Liam og Noel Gallagher hafa boðað endurkomu sveitarinnar Oasis. Bræðurnir, sem hafa lengi eldað grátt silfur, virðast hafa slíðrað sverðin og tilkynntu opinberlega að þeir muni koma saman og halda fjórtán tónleika í Bretlandi og Írlandi næsta sumar.

Orðrómur um endurkomu sveitarinnar hefur lengi verið á sveimi og þá sérstaklega eftir að bræðurnir birtu sama myndbandið á samfélagsmiðlum um helgina þar sem mátti sjá dagsetninguna „27.08.24“ sem breyttist svo í „8 am“. 

Í morgun var svo birt mynd af þeim bræðrum þar sem segir að sveitin muni halda alls fjórtán tónleika næsta sumar.

Fyrstu tvennir tónleikarnir verða í Cardiff í Wales 4. og 5. júlí og næstu fernir í heimaborg þeirra Manchester. Fernir tónleikar verða svo haldnir á Wembley í London, tvennir í Edinborg og loks tvennir í Dublin á Írlandi.

Britpoppsveitin var stofnuð í Manchester árið 1991 og átti þá eftir að verða ein alvinsælasta sveit tíunda áratugarins með smelli á borð við Wonderwall og Don‘t Look Back in Anger.

Síðasta plata sveitarinnar kom út árið 2008 og hætti sveitin ári síðar. Þeir bræður hafa eftir það mikið verið að senda hvor öðrum pillur opinberlega en nú virðast þeir hafa sæst á ný.

Miðasala á tónleikana næsta sumar hefst á síðasta degi ágústmánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.