Tónlist

Haustinu fagnað með tón­leikum á Kaffi Flóru

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stemningin á Kaffi Flóru í fyrra.
Stemningin á Kaffi Flóru í fyrra.

Önnur tónleikaröð Kaffi Flóru í Laugardalnum í tilefni haustsins hefst í dag þegar Hipsumhaps stígur á svið. Eigandi kaffihússins segir Kaffi Flóru bjóða upp á einstaka stemningu þar sem blóm umlykja tónleikagesti á meðan tónleikum stendur.

„Þetta er svo sérstakt rými og mig langaði að nýta það í meira en bara veitingarekstur,“ segir Þorkell Andrésson en hann tók við rekstri veitingastaðarins í fyrra. Kaffi Flóra er í miðjum Grasagarðinum í Laugardalnum og er óhætt að segja að gestir séu í miklum tengslum við náttúruna á staðnum.

Haldnir verða reglulegir tónleikar fjölbreytts hóps listafólks á fimmtudögum frá og með þessari viku og þar til í október. Hipsumhaps stígur fyrst á svið í kvöld klukkan átta, Gugusar fimmtudag eftir viku 29. ágúst, Hjálmar þann 12. september, Valdimar og Örn viku síðar, Pétur Ben þann 26. september, KK þann 3. október, Nanna, RAKEL og Salóme Katrín viku síðar og svo Bogomil Font fimmtudaginn 17. október.

Þorkell segist vona að veitingastaðurinn nái með þessu að stimpla sig inn sem alvöru tónleikastaður á höfuðborgarsvæðinu. Hann sé meira en bara blómasafn og veitingastaður. „Það myndast svo falleg og náin stemning hér á tónleikum, í þessari einstöku birtu hérna inni og í hlýleika blómanna,“ segir Þorkell.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×