Lífið

Fannst eins og hann væri eini fulli í brekkunni fyrir há­degi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Daníel segir eins gott að fara ekki úr lið á miðju skeiði og enda á Bústaðavegi.
Daníel segir eins gott að fara ekki úr lið á miðju skeiði og enda á Bústaðavegi. Eiðfaxi

Daníel Jónsson hrossræktandi og hestamaður lenti í því leiðinlega atviki að þurfa að draga sig úr keppni á Landsmóti hestamanna daginn fyrir keppni vegna þess að hann fór úr axlarlið. Hann hafði áður farið úr axlarlið og kippti aftur í liðinn en fór svo aftur úr lið daginn fyrir keppni, allalvarlegar í það sinnið.

Það er þó stutt í grínið hjá Daníel og hann segist munu njóta mótsins sem áhorfandi í þetta sinn.

„Ég datt af baki og lenti á öxlinni og fór úr axlarliðnum. Svo var því bara kippt í liðinn,svo fór ég aftur í gær úr axlarliðnum. Ég fór niður á spítala og þá var ég axlarbrotinn. Mér var ráðlagt að gera þetta ekki,“ segir Daníel í samtali við Eiðfaxa.

„Það væri kannski ekki gott að vera hér á fullri ferð á skeiði, fara úr axlarliðnum og enda á Bústaðavegi,“ bætir hann við.

Um aðdraganda slyssins var hann ómyrkur í máli.

„Ég er bara að verða gamall. Þetta bara klaufaskapur,“ segir Daníel.

Daníel segist vera með góðar verkjatöflur sem gera honum kleift að njóta mótsins að mestu ókvalinn. Þær séu þó ekki lausar við aukaverkanir.

„Ég fílaði mig í dag eins og ég væri eini fulli maðurinn í brekkunni hérna klukkan ellefu,“ segir hann.

Kári Steinsson fréttamaður hjá Eiðfaxa skýtur þá inn í að Daníel verði það nú ekki um helgina.

„Á verkjatöflum?“ spyr Daníel þá.

„Nei, ekki eini fulli maðurinn í brekkunni,“ áréttir Kári.

„Nei vonandi ekki. Allavega ekki klukkan ellefu,“ segir Daníel þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×