Sport

„Erum í bikarnum til þess að vinna hann“

Andri Már Eggertsson skrifar
Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Breiðablik tryggði sér farseðilinn í undanúrslit Mjólkurbikarsins eftir 5-2 sigur gegn Keflavík. Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var afar ánægður með sigurinn.

„Þetta var frábært. Við erum í bikarnum til þess að vinna hann og þetta var ekki auðveldur leikur fyrirfram en við spiluðum vel og gerðum okkur auðvelt fyrir,“ sagði Nik í samtali við Vísi eftir leik.

Breiðablik byrjaði með látum og skoraði strax á annarri mínútu. Heimakonur fylgdu því eftir og voru 3-0 yfir eftir átján mínútur.

„Við gerðum nokkrar breytingar og stelpurnar sem fengu tækifæri vildu sýna sig og sanna. Það var það sem þær gerðu og þetta var frábær byrjun.“

Breiðablik fékk níu hornspyrnur í fyrri hálfleik sem skilaði tveimur mörkum. Nik var afar ánægður með hornspyrnur liðsins sem skapaði nánast hættu í hvert einasta skipti.

„Þetta voru góðar spyrnur og við vorum með leikmenn inn í teig sem vildu klára færin og þeim var verðlaunað.“

Bæði liðin fengu vítaspyrnu og að mati Nik var rétt niðurstaða í bæði skiptin. Breiðablik fékk vítaspyrnu stuttu eftir að Keflavík minnkaði muninn í 3-1 og Keflavík fékk vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Vítið sem Keflavík fékk var rétt þar sem þetta var hendi og sama með vítaspyrnuna sem við fengum það var líka hárrétt,“ sagði Nik Chamberlain að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×