Lífið

Jörundur og Magda­lena eignuðust dreng: „Ég skil ekki hvað ég hef gert til að eiga hana skilið“

Boði Logason skrifar
Jörundur og Magdalena byrjuðu saman í miðjum heimsfaraldri.
Jörundur og Magdalena byrjuðu saman í miðjum heimsfaraldri. Skjáskot/Instagram

Leikarinn Jör­und­ur Ragn­ars­son og kærastan hans Magda­lena Björns­dótt­ir eignuðust dreng 2. maí síðastliðinn. Um er að ræða þeirra fyrsta barn saman en fyrir á Jörundur einn son, Ragnar sem fermdist í vor.

Jörundur skrifaði einlæga færslu á Facebook til sinnar heittelskuðu í tilefni af þrjátíu ára afmælis hennar í gær:

„Magdalena á daginn í dag. Ekki aðeins er hún að fagna 30 árum heldur er hún nýbúin að fæða gullfallegan son og er að útskrifast úr háskóla í vikunni með fyrstu einkunn.

Hún er algjör afrekskona, dugleg með eindæmum, umhyggjusöm móðir og stjúpmóðir, dýravinur og besta kærasta sem hægt er að ímynda sér. Þar fyrir utan er hún stórskemmtileg, og fegurri en orð fá lýst. Ég skil ekki hvað ég hef gert til að eiga hana skilið, en vá, hvað ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst henni. Til hamingju hetjan mín! Elska þig“ 

Síðastliðnir mánuðir hafa verið afar viðburðaríkir hjá parinu og virðist lífið vera rétt að byrja. 

Jörundur og Magdalena opinberuðu samband sitt í byrjun árs 2021. Töluverður aldursmunur er á þeim en fimmtán ár skilja þau að. 

Jörundur vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sín í þáttunum Næturvaktin, Dagvaktin og Fangavaktin á Stöð 2 en þar fór hann með hlutverk Daníels. Auk þess hefur hann tekið þátt í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Magdalena er dóttir Kolfinnu Baldvinsdóttir, dóttur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram, og Björns Jörundar Friðbjörssonar tónlistarmanns. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×