Umræðan

Hvers vegna kaupir Sýn ekki eigin bréf?

Halldór Kristmannsson skrifar

Fasteignafélagið Kaldalón hefur ákveðið að óska eftir því við hluthafa að flýta boðuðum áformum um kaup á eigin bréfum. Ástæðan er sú að stjórn Kaldalóns telur að markaðsverðmæti fyrirtækisins endurspegli ekki virði undirliggjandi eigna. Markaðsvirði hefur lækkað um átta prósent frá áramótum. Ég hef áður skrifað um íslensk fasteignafélög og benti nýlega á kauptækifæri í Heimum og Kaldalón, samhliða auknum væntingum um vaxtalækkanir. Skráð íslensk fasteignafélög hafa lækkað og þau evrópsku hækkað talsvert undanfarna mánuði.

Í frétt Innherja um málið er greint frá því að stjórn Kaldalóns hafi boðað til hluthafafundar þann 2. júlí næstkomandi, þar sem hluthafar greiði atkvæði um tillöguna. Gangi þetta eftir, verður fyrirtækinu heimilt að eiga allt að tíu prósent af eigin hlutabréfum, sem jafngildir um 1,8 milljörðum króna á gengi gærdagsins. Þetta eru góðar fréttir fyrir hluthafa Kaldalóns, sem vonandi samþykkja tillöguna.

Bókfærðum hagnaði Ljósleiðarans skilað til hluthafa

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn seldi Ljósleiðarann á fjórða ársfjórðungi 2023 fyrir þrjá milljarða króna, þar af er bókfærður hagnaður um 2,5 milljarður króna. Í kjölfar viðskiptanna undir lok síðasta árs, boðuðu stjórnendur Sýnar að bókfærðum hagnaði yrði skilað til hluthafa. Lungað af söluvirði Ljósleiðarans hefur nú þegar verið greitt og lokagreiðsla á sér stað í október. Ekki er því við öðru að búast en að fjármunum verði skilað til eigenda. 

Óskað var eftir heimild hluthafafundar til kaupa á allt að tíu prósent eigin bréfa í apríl síðastliðnum. Ég tel að stjórnendur hljóti að vera sammála hluthöfum í því að virði undirliggjandi eigna endurspegli ekki markaðsvirði fyrirtækisins.

Það væri til dæmis framkvæmanlegt með tvennum hætti. Hægt er að nýta heimild til kaupa á tíu prósent eigin bréfa á meðan gengi hlutabréfa liggur lágt (um 900 milljónir) og skila afgangnum með arðgreiðslu á næsta aðalfundi. Rétt er að halda því til haga að bókfærður hagnaður er um 28 prósent af markaðsvirði Sýnar. Formleg yfirlýsing stjórnar Sýnar um að þessum fjármunum verði skilað til hluthafa er bæði mikilvæg og mjög viðeigandi við þessar aðstæður.

Hlutabréf lækkað um fjórðung frá áramótum

Hlutabréf í Sýn hafa verið í frjálsu falli frá afkomuviðvörun fyrirtækisins í apríl og lækkað um tæplega 25 prósent frá áramótum, ólíkt Kaldalón sem hefur „aðeins“ lækkað um 8 prósent. Nokkuð erfitt hefur verið fyrir hluthafa og markaðsaðila að átta sig á fjárfestasögu fyrirtækisins eftir að hætt var við sölu vefmiðla og útvarpsstöðva. 

Ég tel að hluthafar hafi sent stjórnendum fyrirtækisins ákveðin skilaboð undanfarnar vikur, þar sem lækkun hlutabréfa hefur verið langt umfram önnur skráð fyrirtæki. Þá er Sýn líklega eina fyrirtækið á Aðalmarkaði sem gefur ekki út afkomuspá og ákvað nýlega að fækka opnum fjárfestafundum með markaðsaðilum.

Fjarskiptaskiptafyrirtækið Vodafone er verðmætasta eign Sýnar og árstekjur eru um 15 milljarðar króna. Ásættanlegt hlutfall rekstrarhagnaðar (EBIT) er að minnsta kosti tíu prósent, eftir að hagræðingaaðgerðir skila sér að fullu.

Óskað var eftir heimild hluthafafundar til kaupa á allt að tíu prósent eigin bréfa í apríl síðastliðnum. Ég tel að stjórnendur hljóti að vera sammála hluthöfum í því að virði undirliggjandi eigna endurspegli ekki markaðsvirði fyrirtækisins. Ég hef áður skrifað skoðunarpistil á Innherja og fagnað ákvörðun stjórnar um að selja ekki vefmiðla og útvarpsstöðvar, jafnvel þó að kaupendur hafi verið reiðubúnir að greiða ríflega sjö milljarða króna. Ég tel að miðlarnir séu átta til tíu milljarða króna virði og hafa sýnt tekjuvöxt umfram væntingar. Ég viðurkenni þó fúslega að ég átti ekki von á því að stjórnendur myndu ekki miðla breyttri fjárfestasögu til markaðsaðila, heldur draga úr upplýsingagjöf. Á sama tíma hafa hlutabréf fyrirtæksins lækkað um fjórðung.

Arðsemiskennitölur

Fjarskiptaskiptafyrirtækið Vodafone er verðmætasta eign Sýnar og árstekjur eru um 15 milljarðar króna. Ásættanlegt hlutfall rekstrarhagnaðar (EBIT) er að minnsta kosti tíu prósent, eftir að hagræðingaaðgerðir skila sér að fullu. Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital spáir átta prósent EBIT á þessu ári og 8,6 prósent á því næsta, sem ég tel talsvert undir væntingum stjórnenda, vegna umfangsmikillra hagræðingaaðgerða. Fyrirtækið hefur þó ekki gefið út afkomuspá eins og áður segir þannig að upplýsingar liggja ekki fyrir um væntanleg áhrif á afkomu á þessu ári og því næsta.

Þessu til stuðnings má nefna að á fimm ára tímabili áður en Sýn (þá Fjarskipti hf.) keyptu 365 miðla í mars 2017, var hlutfall rekstrarhagnaðar að jafnaði um tólf prósent. Á Íslandi er arðsemiskennitalan um 12 til 13 sinnum (þó lægri undanfarna mánuði) og 14 sinnum í Evrópu. Ég veit að fjölmargir hluthafar eru sammála mér og telja undirliggjandi eignir að minnsta kosti tvöfalt verðmætari en endurspeglast á hlutabréfamarkaði.

Ábending til stjórnenda

Ég skora á stjórnendur Sýnar að gefa út formlega yfirlýsingu þess efnis að bókfærðum hagnaði vegna sölu Ljósleiðarans verði skilað til hluthafa, hafin verði endurkaup á eigin bréfum, gefin verði út afkomuspá og upplýsingagjöf og samskipti við markaðsaðila verði aukin.

Í framhaldinu hlýtur það að vera forgangsatriði stjórnenda að miðla betur fjárfestasögu fyrirtækisins þannig að markaðsverðmæti endurspegli virði undirliggjandi eigna.

-----

Höfundur rekur eigið ráðgjafafyrirtæki, Aviva Communication og sinnir fjárfestingum í skráðum og óskráðum verðbréfum og fasteignum. Halldór kom nýlega aftur inn í hluthafahóp Sýnar eftir að hafa selt hluti sína í fyrirtækinu fyrir tæpum tveimur árum síðan.


Tengdar fréttir

Telja virði Kalda­lóns ekki njóta sann­mælis á markaði og flýta endur­kaupum

Kaldalón hefur óskað eftir því við hluthafa að boðuðum áformum um að hefja kaup á eigin bréfum verði flýtt enda endurspegli markaðsverðmæti félagsins, að mati stjórnarinnar, ekki undirliggjandi virði eigna þess. Bókfært eigið fé Kaldalóns er umtalsvert meira en markaðsvirði fasteignafélagsins sem er niður um nærri átta prósent frá áramótum.




Umræðan

Sjá meira


×