Veður

Næsta gusa lendi á landinu annað kvöld

Lovísa Arnardóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Þessi mynd var tekin í Fnjóskadal í gær, 5. júní.
Þessi mynd var tekin í Fnjóskadal í gær, 5. júní. Mynd/Sigrún Kristbjörnsdóttir

Langvarandi veðurviðvaranir eiga loks að falla úr gildi í nótt. Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra en gul viðvörun á vestan-, norðan, og austanverðu landinu. 

Síðustu viðvaranir renna úr gildi um klukkan þrjú í nótt en viðvaranir um snjókomu á Ströndum og á Norðurlandi eystra og vestra eru í gildi þar til klukkan 6 um morguninn á laugardag.

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir að bálhvasst verði í nótt um vestanvert landið og töluverð úrkoma frá Vestfjörðum, yfir Norðurland og á Austfirði. Líklega verði eitthvað um slyddu á láglendi og snjókoma til fjalla.

Haraldur fór yfir veðrið í kvöldfréttunum og sagði að á morgun yrði líklega betra veður víðast hvar á landinu. Á norðurlandi yrði kalt en ekki hvasst og ekki mikil úrkoma. Þokkalegt veður yrði sunnanlands.

„Næsta gusa kemur svo annað kvöld og aðra nótt. Þá verður hvassara og töluvert mikil úrkoma í þessu fyrir norðan.“

Hann segir erfitt að spá fyrir um sumarið en að eftir gusuna sem lendi á landinu annað kvöld séu spárnar þannig að veður eigi að vera rólegra. Um helgina og á mánudag verði róleg norðanátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×