Íslenski boltinn

Sjáðu markasúpu fyrri hálf­leiksins á Akur­eyri í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skagamenn skora mörkin því þeir eru þegar komin með átján mörk í Bestu deildinni i sumar eða tvö mörk að meðaltali í leik.
Skagamenn skora mörkin því þeir eru þegar komin með átján mörk í Bestu deildinni i sumar eða tvö mörk að meðaltali í leik. Vísir/Hulda Margrét

Skagamenn sóttu þrjú stig norður á Akureyri í gær eftir að hafa unnið 3-2 sigur á KA í öðrum leik níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta.

Öll fimm mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleiknum sem er einn sá skemmtilegasti í sumar.

KA komst í 1-0 á 14. mínútu með marki Bjarna Aðalsteinssonar og undirbúning Sveins Margeirs Haukssonar.

Hinrik Harðarson nýtti sér vel varnarmistök KA-manna og jafnaði metin tveimur mínútum síðar og Ingi Þór Sigurðsson kom ÍA síðan yfir með frábæru skoti á 22. mínútu.

Ingi Þór fékk þá skemmtilega brjóstkassasendingu frá Steinari Þorsteinssyni og skoraði með glæsilegu skoti.

Ívar Örn Árnason jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu Daníels Hafsteinssonar á 37. mínútu.

Það var ekki búið enn því Erik Tobias Sandberg, miðvörður Skagamanna, fékk víti sem Arnór Smárason nýtti af öryggi.

Mark Arnórs kom á 42. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið og um leið síðasta mark leiksins.

Eftir fimm mörk á fyrstu 42 mínútunum var ekkert skorað á síðustu 48 mínútunum.

Hér fyrir ofan má sjá öll mörkin úr leiknum sem og mörkin úr 3-3 jafntefli FH og Fram. Tveir leiknir búnir að níundu umferðinni og þegar komin ellefu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×