Upp­gjör: Breiða­blik - Víkingur R. 1-1 | Meistararnir björguðu stigi í uppbótartíma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Víkingar fagna jöfnunarmarki kvöldsins.
Víkingar fagna jöfnunarmarki kvöldsins. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar Víkings björguðu stigi er liðið heimsótti Breiðablik í toppslag Bestu-deildar karla í kvöld. Lokatölur 1-1 þar sem Gísli Gottskálk Þórðarson reyndist hetja gestanna.

Ekki vantaði stemninguna á stappfullan Kópavogsvöllinn þar sem búið var að fylla hvert einasta sæti löngu fyrir leik. Leikurinn sjálfur var hins vegar lengur í gang en áhorfendur og buðu liðin upp á heldur bragðdaufan fyrri hálfleik.

Höskuldur Gunnlaugsson og Danijel Dejan Djuric berjast um boltann.Vísir/Diego

Blikarnir voru líklega heldur sterkari og voru meira með boltann. Liðin fengu eitt færi hvort fyrir hlé, en Anton Ari varði vel frá Pablo Punyed á 27. mínútu áður en Pálmi Rafn þurfti heldur betur að taka á honum stóra sínum stuttu fyrir hálfleikshléið þegar Aron Bjarnason var nálægt því að skrúfa boltanum í fjærhornið.

Mörkin létu þó á sér standa og liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Síðari hálfleikur bauð svo að miklu leyti upp á það sama og sá fyrri. Liðin virtust þung í mörgum aðgerðum og færin létu á sér standa.

Eftir því sem leið á hálfleikinn fór þó að færast meiri harka í leikinn og nokkur gul spjöld fóru á loft. Það var svo loksins á 77. mínútu að það dró loksins til tíðinda þegar hnitmiðuð fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar fann fæturna á Jasoni Daða Svanþórssyni sem stýrði boltanum snyrtilega í netið, 1-0.

Aron Bjarnason og Jason Daði Svanþórsson fagna marki þess síðarnefnda.Vísir/Diego

Víkingar vissu að þeir þyrftu að færa sig framar á völlinn til að reyna að ná inn jöfnunarmarki. Liðinu gekk þó lítið sem ekkert að skapa sér færi og vel skipulögð vörn Blikana hélt vel.

Það leit því allt út fyrir að Víkingunum myndi ekki takast að jafna, en á annarri mínútu uppbótartíma barst boltinn út úr teignum þar sem varamaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson átti þrumuskot sem Anton Ari réði ekki við og hálfpartinn missti í netið.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli í toppslag Bestu-deildarinnar og Íslandsmeistarar Víkings halda þriggja stiga forskoti á toppnum.

Stuðningsmenn Víkings fögnuðu vel og innilega þegar Gísli Gottskálk jafnaði metin.Vísir/Diego

Atvik leiksins

Jöfnunarmark Gísla Gottskálks Þórðarsonar í uppbótartíma er klárlega atvik leiksins. Það var í raun lítið sem benti til þess að Víkingarnir myndu jafna þennan leik, en þrumuskot Gísla fann sér leið í gegnum Anton Ara og þaðan í netið. Enn eina ferðina eru Víkingar að finna leiðir til að ná í úrslit.

Stjörnur og skúrkar

Gísli Gottskálk er að sjálfsögðu stjarna kvöldsins. Kom inn á sem varamaður á 81. mínútu og bjargaði stigi fyrir Íslandsmeistarana rétt rúmum tíu mínútum síðar. Í liði Blika átti Damir Muminovic hörkuleik og hélt framherjum Víkinga í skefjum lengst af. Þá má einnig hrósa Jasoni Daða Svanþórssyni fyrir sitt framlag í liði Breiðabliks, en hann skoraði mark heimamanna.

Anton Ari Einarsson verður hins vegar að taka á sig skúrkastimpilinn. Hann hafði verið öruggur í sínum aðgerðum í leiknum fram að jöfnunarmarkinu þegar skot Gísla fann sér leið í gegnum hann og í netið.

Dómarinn

Dómarateymi kvöldsins með Sigurð Hjört Þrastarson í fararbroddi stóð sig með prýði í kvöld. Lítið út á þeirra frammistöðu að setja, þó stuðningsmenn beggja liða geti örugglega fundið atvik þar sem þeim finnst halla á sitt lið.

Sigurður Hjörtur Þrastarsonn dæmdi leik kvöldsins.Vísir/Diego

Umgjörð og stemning

Allt til fyrirmyndar á Kópavogsvelli í kvöld. Nýja stúkan var troðfull af Blikum og Víkingar fengu sitt pláss í gömlu stúkunni. Sungið og trallað nánast allan leikinn og vel staðið að öllu á Kópavogsvelli í kvöld.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira