Lífið

Ætluðu að draga sig úr Euro­vision fram á síðustu stundu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurvegari Sviss steig næstum því ekki á svið í keppninni í ár.
Sigurvegari Sviss steig næstum því ekki á svið í keppninni í ár. EPA-EFE/JESSICA GO

Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) tókst af afstýra því á síðustu stundu að sex lönd hættu við þátttöku í Eurovision lokakeppninni í ár. Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins VG þar sem segir að 25 mínútum fyrir keppni hafi allt stefnt í að löndin myndu ekki taka þátt.

Í umfjöllun VG segir að löndin hafi verið Sviss, Noregur, Grikkland, Írland, Portúgal og Bretland. Hefði það orðið raunin hefðu einungis nítján lönd tekið þátt í keppninni og keppnin verið átján mínútum styttri en ella. Eins og fram hefur komið stóð mikinn styr um þátttöku Ísrael í keppninni vegna stríðsreksturs Ísraelsmanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Fram kemur að þrjú atriði hafi verið nefnd sem ástæður þess að löndin hugðust hætta keppni. Þátttaka Ísrael, hegðun ísraelska hópsins og öryggisvarða þeirra auk brottvísunar Joost Klein, fulltrúa Hollands úr keppninni. Eins og fram hefur komið var uppi fótur og fit hjá skipuleggjendum enda létu fjögur lönd sig vanta í fánaathöfn sjálfan keppnisdaginn.

Ýmislegt er dregið upp í umfjöllun VG sem dæmi um slæma hegðun ísraelska hópsins. Haft er eftir Magnus Børmark, einum keppenda Noregs í ár, að svo virðist vera sem aðrar reglur hafi gilt um ísraelska hópinn en aðra keppendur. Þannig hafi ísraelskur stílisti meðal annars kallað fulltrúa Írlands skrímsli.

Børmark segir samdóma álit fulltrúa landanna sex hafa verið þá að þau hafi ekki viljað taka þátt í því að Eurovision keppnin yrði nýtt sem hluti af áróðursvél Ísrael. Ekki kemur fram hvað hafi orðið til þess að löndin sex hættu við að hætta við keppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×